Safnað fyrir endurgerð Sóleyjar

Lee Lorenzo Lynch og Þorbjörg Jónsdóttir telja að kvikmyndin Sóley, …
Lee Lorenzo Lynch og Þorbjörg Jónsdóttir telja að kvikmyndin Sóley, sem listakonan Róska framleiddi teljist í flokki heimskvikmynda.

„Ég kynntist konunni minni í kvikmyndanámi og við elskum bæði sögulegar og dulrænar kvikmyndir. Sóley er þannig mynd. Hún er kvikmynd í fullri lengd sem listakonan Róska, leikstýrði og skrifaði í samvinnu við eiginmann sinn Manrico Pavolettoni árið 1982,“ segir Lee Lorenzo Lynch en hann ásamt eiginkonu sinni, Þorbjörgu Jónsdóttur kvikmyndagerðarkonu, stendur fyrir söfunun á Karolina fund til þess að endurgera kvikmyndina Sóleyað svo miklu leyti sem það er hægt þar sem negatíva myndarinnar er týnd.

Sóley sem er á 35 mm filmu hefur sjaldan verið sýnd að sögn Lynch og eina eintakið sem vitað sé um er sýningareintak í mjög slæmu ásigkomulagi hjá Kvikmyndasafni Íslands.

„Kvikmyndasafnið hefur verið okkur innan handar við að skanna sýningareintakið í háskerpu og söfnunina settum við af stað til þess að safna fyrir kostnaði vegna stafrænnar hreinsunar kvikmyndarinnar. Það þarf einnig að bæta textasetningu og hljóð svo hægt verði að gefa þessa költmynd út á stafrænu formi,“ segir Lynch sem segir Sóley falla í flokk heimskvikmynda og þegar Róska hafi framleitt hana 1982 hafi hún verið ein fárra íslenskra kvenna sem leikstýrðu kvikmyndum í fullri lengd.

Mikilvægur listamaður

„Ég þekkti Rósku ekki, hún var móðursystir Þorbjargar konu minnar. Róska varð bráðkvödd 55 ára gömul árið 1996,“ segir Lynch en Róska var þekkt fyrir að fara sínar eigin leiðir bæði í lífinu og listinni.

Lynch telur að Róska hafi verið ein af mikilvægustu listamönnum Íslands. Hún hafi verið pólitískur listamaður, sem málaði, framkvæmdi gjörninga, kvikmyndaði og tileinkaði sér fljótt tölvugerðarlist. Róska lærði myndlist og kvikmyndagerð í Prag og Róm þar sem hún bjó lengst af.

„Róska var sögð ótrúleg kraftakona en hún var einn af stofnendum Nýlistasafnsins. Róska gerði meðal annars heimildarþætti um Ísland fyrir ítalska sjónvarpið. Þættirnir þóttu of pólitískir á Natóárunum til þess að sýna þá á Íslandi,“ segir Lynch og bætir við að Róska hafi gert nokkrar stuttmyndir en Sóley sé sú eina sem gerð var í fullri lengd. Haft var eftir Rósku að Sóley fjallaði um draum og raunveruleika sem mætist og fari í ferðalag saman.

Sýningareintakið af Sóley var sýnt í Iðnó 25. mars og mættu 150 manns á sýninguna að sögn Lynch sem segir að góður rómur hafi verið gerður að myndinni. Unga fólkinu í kvikmyndaskólanum hafi líkað myndin vel og fullorðinn einstaklingur sem lék sem barn í myndinni kom að sjá hana í fyrsta sinn.

„Í Sóley er töfraraunsæi og þjóðsagan skammt undan. Myndin gerist á 18. öld og fjallar um ungan bónda sem fer á hálendið í leit að hestunum sínum. Þar hittir hann Sóleyju sem er álfkona. Hún aðstoðar hann við leit að hestunum og hann fær að hitta fólkið hennar,“ segir Lynch og bætir við að í myndinni sé tekið á misskiptingu valds og auðs, sem sannarlega eigi fullt erindi í dag, 37 árum eftir að myndin kom fyrst út. 

Fordómar um álfa og huldufólk

Lynch vonast til þess að hægt verði að frumsýna Sóley eftir lagfæringar árið 2020. Lynch segir að hann og Þorbjörg elski íslenskar myndir vegna þess að í þeim sé fjallað um álfa og hulduverur. Ýmsar þjóðir kjósi að mistúlka myndirnar og stefni álfum og huldufólki gegn kristni. Það séu að mati Lynch fordómar.

Hlekkur söfnunarinnar.

Fréttin birtist upphaflega í Morgunblaðinu 13. apríl.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »