„Það var mikill reykur“

„Hér kom upp eldur í bílageymslu, í einhverju dóti sem var geymt í bílageymslunni,“ segir Sverrir Björn Björnsson, varðstjóri hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, í samtali við mbl.is. „Það var mikill reykur og þá hlýtur að vera töluverður eldur í þessu líka.“

Slökkviliðið var með mikinn viðbúnað í morgun eftir að tilkynning barst um eld á Sléttuvegi í Reykjavík. Allir sem voru á vaktinni voru kallaðir út.

Aðspurður segir Sverrir að það liggi ekki fyrir á þessari stundu hvað það var sem brann inni í geymslunni.

Slökkviliðið sendi reykkafara inn í húsið. Sverrir segir að þeim hafi tekist að finna eldinn og slökkva hann. „Það var mjög svartur og ljótur reykur af þessu.“

Aðspurður segir Sverrir að engum hafi orðið meint af vegna eldsins. „Við náðum að mynda yfirþrýsting í bílageymslunni þannig að það fór enginn reykur upp í íbúðirnar. Við heyrðum í fólkinu og einhverjir voru fluttir í annað húsnæði til öryggis, en það mega allir fara til síns heima núna.“

Unnið að því að spúla reykkafara sem fóru inn í …
Unnið að því að spúla reykkafara sem fóru inn í bygginguna. Þeim tókst að finna og slökkva eldinn sem logaði. mbl.is/Jón Pétur
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert