Páskahátíð í afskekktasta bæ Grænlands

Ignatius Arqe tekur við sigurlaunum úr hendi Joey Charn.
Ignatius Arqe tekur við sigurlaunum úr hendi Joey Charn. Ljósmynd/Hrókurinn

Þrettándu páskahátíð Hróksins í Ittoqqortoormiit, afskekktasta bæ Grænlands, lauk á mánudag með Air Iceland Connect-hátíðinni ,,Dagur vináttu Íslands og Grænlands".

Nú um páskana hafa Máni Hrafnsson og Joey Chan, liðsmenn Hróksins, staðið fyrir fjölda viðburða en hátíðin var tileinkuð minningu hins unga veiðimanns, Karls Napatoq, sem fórst í Scoresby-sundi í mars.

Napatoq-fjölskyldan hefur frá upphafi verið meðal dyggustu liðsmanna Hróksins í ísbjarnarbænum mikla, og Paulus Napatoq, bróðir Karls, er einn snjallasti skákmaður Grænlands, þótt blindur sé.

Gleðin var allsráðaandi á hátíð Hróksins í afskekktasta bæ Grænlands.
Gleðin var allsráðaandi á hátíð Hróksins í afskekktasta bæ Grænlands. Ljósmynd/Hrókurinn

Hátíðin hófst með heimsóknum Hróksliða í leikskólann og dvalarheimili aldraðra í bænum, en þangað var farið með páskaegg og margvíslegan glaðning, ekki síst frá íslenskum prjónakonum. Þau Máni og Joey fóru síðan og lögðu blóm og ljósmynd á minnismerki Karls.

Á fimmtudag tefldi Máni Norlandair-fjöltefli, og samhliða hófst myndlistarsamkeppni PENNANS undir stjórn Joey. Á föstudag var komið að BÓNUS-páskaeggjamótinu, en þar voru páskaegg í boði fyrir alla keppendur. Hinn bráðefnilegi og trausti skákmaður Ignatius Arqe sigraði eftir harða baráttu, Paulus Napatoq hreppti bronsið silfrið og Hans-Henrik bronsið.

Paulus, skáksnillingurinn blindi, Máni Hrafnsson og Jarus Napatoq.
Paulus, skáksnillingurinn blindi, Máni Hrafnsson og Jarus Napatoq. Ljósmynd/Hrókurinn

Á laugardag var svo Air Greenland Meistaramótið haldið og þar náði Ignatius öðru gulli, Kristian Hammiken náði silfri og Paulus bronsi.

Auk framangreindra bakhjarla tóku sveitarfélagið Sermersooq og Mannvit þátt í hátíðinni. Í samtali við tíðindamann Hróksins sagði Máni, sem ótal sinnum hefur farið á Hróksins vegum vítt og breitt um Grænland að hátíðin hefði heppnast framúrskarandi vel: ,,Gleði og kærleikur voru leiðarljósin. Hér eigum við bestu vini í heimi, og hlökkum til að koma aftur á næsta ári."

Ljósmynd/Hrókurinn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert