Sungu af gleði í hádeginu

Heimilislausum var boðið til hádegisverðar í dag og mættu um …
Heimilislausum var boðið til hádegisverðar í dag og mættu um 40. „Þetta var algjör páskaveisla og þvílík gleði í mannskapnum,“ segir Guðrún Hauksdóttir Schmidt, skipuleggjandi viðburðarins. Jakob Fannar Sigurðsson

„Þetta gekk svo frábærlega vel og það var svo mikil gleði í mannskapnum. Mikill kærleikur og fólk borðaði vel. Þetta gekk alveg svakalega vel,“ segir Guðrún Hauksdóttir Schmidt, stofnandi Öruggs skjóls, í samtali við mbl.is um hádegisverð fyrir heimilisfólk sem haldinn var í hádeginu í dag í húsnæði Hjálpræðishersins í Mjódd.

Um 40 heimilislausir mættu til veislunnar, en fólkið var sótt með rútum Grey Line í gistiskýli heimilislausra og í húsnæði á Granda.

„Þetta var alveg stórkostlegur matur. Þetta var lamb og svínakjöt með öllu tilheyrandi. Kók frá Vífilfelli og Hjálpræðisherinn búinn að skreyta salinn, setja hann í páskabúning. Þeir gáfu í raun miklu meiri mat en þörf var á. Þeir fóru með restina í Samhjálp,“ útskýrir hún. Fjárhúsið í Mathöll Granda gaf allan mat sem boðið var upp á.

„Þetta var algjör páskaveisla og þvílík gleði í mannskapnum. Þeim fannst þetta hátíðardagur því þeir eru oft hundleiðir, það er ekki einu sinni sjónvarp í gistiskýlinu þannig að þeir hafa ekkert við að vera,“ segir Guðrún og lýsir því að fólk hafi sungið af gleði.

Hún segir jafnframt að gaman yrði að getað endurtekið viðburðinn. „Ef maður fær svona góða stuðningsaðila þá myndi maður bara geta gert þetta á fimm mínútum. Það var frábærlega staðið að þessu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert