Töluvert tjón á bílum og húsnæði

Eldurinn varð í bílakjallara á Sléttuvegi 7.
Eldurinn varð í bílakjallara á Sléttuvegi 7. mbl.is/Árni Sæberg

Töluvert tjón varð á bílum og húsnæði þegar eldur kviknaði í bílakjallara blokkar á Sléttuvegi 7. Ekki liggur fyrir hvernig kviknaði í en upptökin eru talin hafa verið í dekkjum og einhvers konar hrúgu í kringum þau.

Eldurinn náði ekki að læsa sig í bílana í kjallaranum en tjónið felst í skemmdum af völdum reyks og sóts. Þá kviknaði í hurðum og slíku í kjallaranum og sem afleiðing er hann ónothæfur sem bílakjallari þar til gert hefur verið við hann.

Tryggingafélög hafa tekið við vettvanginum af lögreglu, að sögn Björns Arnars Magnússonar, framkvæmdastjóri Brynju húsfélags sem á húsnæðið. Húsnæðið er blokk með 33 íbúðum fyrir öryrkja. Verið er að meta skemmdirnar.

„Þetta er auðvitað töluvert tjón bæði á húsnæði og bifreiðum íbúanna. Bílakjallarinn er svo þannig að ekki er hægt að nota hann,“ segir Björn. Hann segist ekkert geta fullyrt um eldsupptök annað en að þau hafi orðið í dekkjum í kjallaranum og hrúgu einhvers konar í kringum þau.

Mikill viðbúnaður var á svæðinu.
Mikill viðbúnaður var á svæðinu. mbl.is/Árni Sæberg
Engum varð meint af.
Engum varð meint af. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert