50 undir áhrifum vímuefna

Miklu fleiri greinast með mörg eiturefni í blóði en áður.
Miklu fleiri greinast með mörg eiturefni í blóði en áður. mbl.is/Kristinn Magnússon

Yfir páskahelgina hafði lögreglan á höfuðborgarsvæðinu afskipti af um 50 ökumönnum vegna gruns um akstur bifreiðar undir áhrifum áfengis eða ávana- og fíkniefna.

Nokkrir þeirra voru einnig sviptir ökuréttindum og sumir ítrekað. Þá fundust einnig fíkniefni í fórum sumra þessara ökumanna sem lögreglan stöðvaði, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni.

Alls voru skráð 186 brot þar sem ökumaður var grunaður um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna á höfuðborgarsvæðinu í febrúar. Ekki hafa verið skráð jafn mörg tilvik síðan lögum og verklagi lögreglu vegna aksturs undir áhrifum ávana- og fíkniefna var breytt árið 2006.

Lögreglan á Suðurnesjum hefur á undanförnum dögum tekið á annan tug ökumanna úr umferð vegna gruns um vímuefnaakstur. Einn þeirra var jafnframt með útsláanlega kylfu í bifreið sinni og telst það vera brot á vopnalögum, samkvæmt tilkynningu. Annar, sem ók að auki réttindalaus var ekki fyrr kominn úr sýnatöku á lögreglustöð en til hans sást á Reykjanesbraut þar sem hann var að kasta grjóti á veginn. Hann var því vistaður á lögreglustöð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert