Aðhafast ekki frekar á þessu stigi

„Landsliðsnefnd harmar að svona mál skuli koma upp og mun …
„Landsliðsnefnd harmar að svona mál skuli koma upp og mun beina þeim sjálfsögðu tilmælum til landsliðsmanna og hestamanna allra að sýna heiðarleika og háttvísi í viðskiptum með hross, eins og í viðskiptum almennt,“ segir í svari landsliðsnefndar. mbl.is/Eggert

Landsliðsnefnd Landssambands hestamannafélaga (LH) hefur rætt málefni landsliðsknapans Guðmundar Björgvinssonar á fundum sínum að undanförnu og harmar að mál sem þessi komi upp, en telur ekki tilefni til þess að aðhafast frekar á þessu stigi. Þetta kemur fram í skriflegu svari sem nefndarmaðurinn Guðni Halldórsson sendi mbl.is fyrir hönd landsliðsnefndar.

Dómur féll í hrossakaupamáli í Héraðsdómi Suðurlands fyrr í þessum mánuði og var Guðmundur dæmdur til greiðslu 10,4 milljóna króna skaðabóta vegna sölu á stóðhestinum Byl frá Breiðholti og fyrir að hafa brugðist skyldum sínum gagnvart eiganda hests sem hann hafði í umboðssölu. Fram hefur komið að dómnum verði áfrýjað til Landsréttar.

Málið var upphaflega kært til lögreglu, en var látið niður falla af hálfu héraðssaksóknara. Þá höfðaði fyrri eigandi Byls einkamál gegn Guðmundi og vann það í héraðsdómi, sem áður segir.

„Landslið Íslands í hestaíþróttum hefur markað sér þá stefnu að landsliðsmenn skuli vera fyrirmynd annarra í hvívetna og þykir miður að mál sem þessi skuli koma upp. En í ljósi þess að málið er ekki endanlega til lykta leitt og að um er að ræða einkamál á milli aðila um viðskipti, en ekki sakfellingu, telur landsliðsnefnd ekki tilefni til að aðhafast frekar á þessu stigi,“ segir í svari landsliðsnefndar við fyrirspurn blaðamanns.

„Landsliðsnefnd harmar að svona mál skuli koma upp og mun beina þeim sjálfsögðu tilmælum til landsliðsmanna og hestamanna allra að sýna heiðarleika og háttvísi í viðskiptum með hross, eins og í viðskiptum almennt,“ segir einnig í svari landsliðsnefndar.

Ekki einsdæmi að eigendur telji sig hlunnfarna

Mál Guðmundar hefur vakið nokkra athygli, enda um háar fjárhæðir að ræða. Það er hins vegar ekki einsdæmi innan hestamennskunnar hér á landi að eigendur hesta telji sig hlunnfarna eftir hestaviðskipti, þar sem landsliðmaður í hestaíþróttum hefur milligöngu um söluna.

Í hæstaréttardómi sem féll í fyrra má lesa um önnur slík hrossakaup.

Þau viðskipti vörðuðu hryssuna Dömu frá Pulu. Þáverandi eigandi hryssunnar seldi hana á sex milljónir kóna árið 2015 til fyrirtækisins Kvíarhóls ehf., sem er í eigu landsliðsknapans Viðars Ingólfssonar, sem hafði haft hestinn í þjálfun í nokkrar vikur.

Samkvæmt því sem eigandinn sagði fyrir dómi, var það skilningur hennar að Viðar og Ólafur Brynjar Ásgeirsson, annar afreksknapi og þáverandi bústjóri á Kvistum í Rangárþingi ytra, ætluðu að hafa milligöngu um söluna og taka sér milljón í sölulaun.

Milljónirnar urðu hins vegar þrjár, þegar að hesturinn var seldur áfram til eiganda búsins að Kvistum, Günther Weber, á níu milljónir króna.

Fyrrverandi eigandi hryssunnar varð ósátt er hún byrjaði í kjölfarið að heyra sögur af því að þeir Viðar og Ólafur Brynjar væru að „gera einhverja svakalega sölu á einhverri meri og tekið 1.500.000 á mann í sölulaun“ og kallaði Viðar strax á sinn fund.

Landsliðsknapinn Viðar Ingólfsson, hér á tölti á Tuma frá Stóra-Hofi.
Landsliðsknapinn Viðar Ingólfsson, hér á tölti á Tuma frá Stóra-Hofi. Ljósmynd/Eyþór Árnason

„Hann viðurkenndi þá að þeir hafi ekki verið að segja mér satt og að þeir hafi lagt 3.000.000 ofan á það sem ég fékk fyrir hana og skipt því á milli sín,“ skrifaði fyrrverandi eigandi Dömu frá Pulu í tölvupósti til framkvæmdastjóra búsins á Kvistum.

Þessi hrossakaup ein og sér voru þó ekki aðalatriði málsins fyrir dómstólum, heldur rataði málið fyrir dóm sökum þess að Ólafi Brynjari var sagt upp störfum að Kvistum fyrir að hafa haft fjárhagslegan ávinning af sölu hryssunnar til eiganda búsins sem hann starfaði hjá.

Hann neitaði því að hafa haft ávinning af sölu hryssunnar, taldi hrossabúið hafa brotið á sér með riftun ráðningarsamnings og gerði kröfu um að fá vangreidd laun greidd út.

Viðar tók undir með Ólafi Brynjari fyrir dómi og sagðist sjálfur hafa tekið allan mismuninn, milljónirnar þrjár, í eigin vasa.

Á þær skýringar féllust þó hvorki Héraðsdómur Suðurlands og Hæstiréttur Íslands á og sýknuðu hrossabúið af kröfum Ólafs Brynjars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert