David Attenborough á Íslandi

Sir David Attenborough hefur verið á ferð og flugi í …
Sir David Attenborough hefur verið á ferð og flugi í mánuðinum. Hér tekur hann þátt í pallborðsumræðum á vorfundi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í Washington í Bandaríkjunum 11. apríl. AFP

Sir David Attenborough, náttúrulífssjónvarpsmaðurinn heimsþekkti, er staddur á Íslandi og vinnur að verkefni fyrir breska ríkisútvarpið BBC, með einhverri aðkomu íslenska framleiðslufyrirtækisins True North.

Þetta hefur mbl.is fengið staðfest frá starfsmanni á skrifstofu framleiðslufyrirtækis sem er í eigu Attenboroughs sjálfs. Aðspurð vildi hún þó ekki greina nánar frá því hvað Attenborough væri að gera hér og sagði að þar sem verkefnið væri á vegum BBC væri það einnig þeirra að greina frá.

Starfsmaður True North sem ræddi stuttlega við blaðamann mbl.is gat hvorki staðfest né neitað því að Attenborough væri á landinu og ekkert gefið upp um verkefnið, þar sem hann væri bundinn trúnaði.

Engin svör hafa fengist frá BBC um það hvað Attenborough sé að fást við hér á landi, en áhugavert er að náttúrufræðingurinn góðkunni hafi dvalið hér á sjálfum Degi jarðar, sem var í gær, en dagurinn er helgaður fræðslu um umhverfismál.

Nýjasta útgáfa Attenboroughs er klukkutíma löng heimildarmynd um loftslagsbreytingar sem sýnd var á BBC One síðasta fimmtudag og ber heitið Climate Change – The Facts (Loftslagsbreytingar – staðreyndirnar).

Þar varaði hann við því að jarðarbúar stæðu nú frammi fyrir „óafturkræfum skaða á náttúrunni og samfélagslegu hruni“ ef ekki yrði gripið til róttækra aðgerða í loftslagsmálum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert