Dópaðir og drukknir ökumenn á ferðinni

mbl.is/Eggert

Flest málanna sem rötuðu á borð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gær og í nótt tengjast akstri undir áhrifum áfengis og fíkniefna. Einn ökumaður er vistaður í fangageymslum lögreglunnar en hann var stöðvaður í miðborginni í nótt. Reyndist hann undir áhrifum fíkniefna á stolinni bifreið. Hann hefur ítrekað verið stöðvaður undir stýri þrátt fyrir að vera sviptur ökuréttindum.

Fjórir aðrir ökumenn voru stöðvaðir fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna í gær og í nótt en einn var stöðvaður fyrir ölvunarakstur. Þrír þeirra voru stöðvaðir í Reykjavík, einn í Kópavogi og einn í Hafnarfirði. Þeir reyndust heldur ekki allir með réttindi til þess að aka bifreið. 

Seint í gærkvöldi var síðan tilkynnt um innbrot í bifreið við Heiðmerkurveg en búið var að brjóta rúðu bifreiðarinnar og stela úr henni fartölvum.

mbl.is