Fjárhagsleg áhrif úrskurðarins „óveruleg“

Orkuveitan bendir á að frá 2016 hafi vatnsgjald í Reykjavík …
Orkuveitan bendir á að frá 2016 hafi vatnsgjald í Reykjavík tvisvar sinnum verið lækkað umtalsvert; um 11,2% í byrjun árs 2017 og aftur um 10% í byrjun árs 2018. mbl.is/Árni Sæberg

Orkuveita Reykjavíkur hefur ítrekað óskað eftir leiðbeiningum frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu frá ráðuneytinu um hvað leggja skuli til grundvallar við álagningu vatnsgjalds frá því að úrskurður féll í síðasta mánuði þar sem álagning OR á vatnsgjaldi ársins 2016 var úrskurðuð ólögmæt. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Orkuveitunni.

Ráðuneytið greindi frá því fyrr í kvöld að í kjölfar úrskurðarins hefur það ákveðið að taka til skoðunar gjald­skrár allra sveit­ar­fé­laga, sem sett­ar hafa verið á grund­velli laga um vatns­veit­ur sveit­ar­fé­laga.

OR bendir á að frá 2016 hafi vatnsgjald í Reykjavík tvisvar sinnum verið lækkað umtalsvert; um 11,2% í byrjun árs 2017 og aftur um 10% í byrjun árs 2018. Í úrskurði ráðuneytisins er kröfu kærenda um endurgreiðslu vísað frá. „Þar sem gjaldskrár hafa verið lækkaðar í takti við batnandi afkomu vatnsveiturekstursins virðast fjárhagsleg áhrif úrskurðarins við fyrstu skoðun óveruleg,“ segir í tilkynningu frá OR.

Í lögum um vatnsveitur sveitarfélaga er sagt að nánar skuli kveðið á um hvað leggja skuli til grundvallar við álagningu vatnsgjalds í reglugerð. OR bendir á að slík reglugerð hafi hins vegar ekki verið sett og hefur OR vísað til leiðbeiningarskyldu stjórnvalda í erindum sínum til ráðuneytisins.

„Vegna þessarar óvissu hefur starfsfólk OR átt fund með fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga og Samorku – samtaka orku- og veitufyrirtækja. Sveitarfélög sem reka eigin vatnsveitur og veitufyrirtæki eiga rétt eins og almenningur talsvert undir því að reglur stjórnvalda séu skýrar hvað þetta varðar; að ekki sé bara sagt hvað megi ekki, heldur fáist frá stjórnvöldum leiðbeiningar sem nýtist vatnsveitum og viðskiptavinum þeirra,“ segir í tilkynningu.

Þar segir jafnframt að áhrif úrskurðarins muni  skýrast þegar samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefur veitt leiðsögn um gjaldskrárnar.

mbl.is