Hálendisvegum lokað fyrir umferð

Veðurfar og ástand svæðanna nú gefur ekki ástæðu til bjartsýni …
Veðurfar og ástand svæðanna nú gefur ekki ástæðu til bjartsýni um að hægt verði að opna þau á undan áætlun. Ljósmynd/Umhverfisstofnun

Ekki er útlit fyrir að hægt verði að opna fyrir umferð um Fjaðrárgljúfur og Skógaheiði fyrr en 1. júní. Þá hefur Vegagerðin lokað flestum hálendisvegum vegna aurbleytu. Þetta staðfestir Björn Þorláksson, upplýsingafulltrúi Umhverfisstofnunar, í samtali við mbl.is.

Horft var til þess að opna mætti fyrir umferð um Fjaðrárgljúfur og Skógaheiði fyrir 1. júní þrátt fyrir að lokunin hefði verið gefin út til þess tíma, en að sögn Björns gefur veðurfar og ástand svæðanna nú ekki ástæðu til bjartsýni um að hægt verði að opna þau á undan áætlun.

Í tilkynningu á vef Umhverfisstofnunar í dag segir að búið sé að loka flestum hálendisvegum, en á vorin þegar snjóa leysir og frost fer úr jörðu er mikil hætta á skemmdum á vegum og gróðri.

Þetta stafar helst af ótímabærri umferð og því að ekið er utan vega til að krækja fyrir skafla og polla eða ekið á ótraustri snjóþekju. Einnig er hætta á skemmdum á gróðri í og við áningarstaði og gönguleiðir þegar byrjar að hlána þar sem jarðvegur verður vatnsósa og gróður þolir engan átroðning. Jarðvegur er gljúpur og hvert fótspor getur skilið eftir sig djúpt far og jafnvel varanlegar skemmdir.“

Ferðamannastaðir á hálendinu séu sérstaklega viðkvæmir á þessum árstíma og mikilvægt að þau svæði fái frið fyrir allri umferð á meðan frost sé að fara úr jörðu, jarðvegur að þorna og gróður að vakna til lífsins.

Þá er sérstaklega tekið fram að akstur inn á lokað svæði sé óheimill samkvæmt lögum og varði sektum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert