Leiðaráætlun nýs flugfélags tilbúin

Hreiðar Her­manns­son, hót­el­stjóri Stracta Hotels.
Hreiðar Her­manns­son, hót­el­stjóri Stracta Hotels. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Búið er að útbúa leiðaráætlun fyrir nýtt flugfélag sem Hreiðar Hermannsson, hótelstjóri Stracta Hotels, er í forsvari fyrir. Hann segir vinnu í fullum gangi en ekki sé hægt að gefa upp tímasetningu á því hvenær rekstur geti hafist.

Hreiðar sagði á dögunum að forgangsmál ætti að vera að koma öðru lággjaldaflugfélagi á kortið eftir gjaldþrot WOW air. Hann vill ekki gefa upp hverjir séu með sér í undirbúningsvinnunni, en um sé að ræða fólk sem hafi unnið hjá WOW.

„Þetta er fámennur hópur núna meðan verið er að koma þessu á laggirnar. Það gerist ekkert í því fyrr en allt liggur fyrir, því til að byrja með eru málin afgreidd maður á mann. Þeir sem eru að vinna þetta er allt reynslumikið fólk frá WOW air. Fólk sem þekkir alla hluti til flugrekstrar, flugmenn og aðrir sem voru í þessu. Fólk af bestu gerð,“ segir Hreiðar við mbl.is.

Hreiðar segir að Skúli Mogensen, fyrrum forstjóri WOW air, hafi enga aðkomu að málinu og ekki sé unnið eftir því að endurreisa félagið. Um sé að ræða nýtt félag sem myndi sækja um nýtt flugrekstrarleyfi.

„Það er búið að gera leiðaráætlun, sem miðar við að koma tveimur vélum í loftið í byrjun. Það er til þessara helstu borga; Köben og London, og svo Alicante og Tenerife á nóttunni. Síðan eftir ár er stefnt að því að koma fjórum vélum í loftið og horfa þá kannski til Bandaríkjanna,“ segir Hreiðar, en áhersla sé lögð á að hafa allt með einfaldasta móti.

„Þetta er lággjaldaflugfélag, sem er með eins einfalda uppbyggingu og hægt er. Sæti eru seld á því verði sem skilar ásættanlegum rekstrarafgangi. Það verður lítil breidd í aukahlutum sem hægt yrði að kaupa, svo sem sætum eða slíku. Allt verður með hinu einfaldasta móti.“

Hreiðar er eigandi Stracta Hotels á Hellu.
Hreiðar er eigandi Stracta Hotels á Hellu. Ljósmynd:Erling&Silla

Allir Íslendingar hafa hagsmuni að gæta

Erfitt er að gefa upp nákvæma tímasetningu á því hvenær hægt er að hefja rekstur, þar sem vont væri að lofa einhverju og þurfa svo að bakka með það, að sögn Hreiðars. Fólk þurfi að trúa á félagið frá byrjun. Hvað fjárfesta varðar segist Hreiðar ekki vera kominn með þá að borðinu.

„Ég voga mér ekki að biðja nokkurn mann um hlutafé fyrr en ég get lagt spilin á borðið. En það er ólíklegasta fólk sem hefur sagt við mig að það sé tilbúið að leggja fé í þetta. Ég vil samt ekki biðja neinn um neitt fyrr en allt liggur fyrir. Það eru engar tölur á borðinu, en mikill áhugi,“ segir Hreiðar.

Þá séu engir fleiri úr hótelgeiranum með í undirbúningsvinnunni, en Hreiðar vonar að sem flestir muni svo koma í lið með félaginu.

„Allir Íslendingar eru hagsmunaaðilar. Svo er að velja úr hverjir hafa hug á að veita þessu brautargengi með hlutafé. Þá er ég að hugsa um fyrirtæki og ferðaaðila sem nota mikið flugsamgöngur til þess að koma í lið með okkur og fá meiri möguleika inn og út úr landinu,“ segir Hreiðar.

Hlutirnir eins einfaldir og hægt er

Hann vill ekki segja hvað hann hafi lagt mikið fjármagn til undirbúningsvinnunnar sem nú er í gangi.

„Ég spái ekkert í því. Það eina sem kemst að hjá mér er að einhver geri þetta og að þetta komist af stað. Það eru engir hagsmunir í þessu hjá mér aðrir en bara almennir hagsmunir að reyna að auka fjölbreytni á sætum inn og út úr landinu. Ég er í forsvari og vil gera þetta þannig að allt sé byggt á staðreyndum en engum ágiskunum. Hlutirnir eiga að vera eins einfaldir og hægt er. Þó verðlagið verði hagstætt þá muni reksturinn verða í góðum málum,“ segir Hreiðar.

Hann segist ekki vera kominn í samband við leigusala á flugvélum, en á ekki von á því að það verði vandamál.

„Það verður ekki hindrum. Það virðist vera talsvert umfram framboð á leiguvélum og menn þurfa ekki að hafa áhyggjur af því atriði,“ segir hann, en ekki er víst hvort um verði að ræða Airbus eða Boeing-vélar.

„Það er ekki algjörlega búið að negla það niður. Nú er verið að bera saman rekstrarkostnaðinn og leiguverðið þar á móti. Það liggur ekki alveg fyrir, en það sem af er virðist sem Airbus sé nær því,“ segir Hreiðar.

Vildi helst nafnið Air Stracta

Aðspurður hvort komið sé nafn á nýja félagið segir hann svo ekki vera. Helst vilji hann að það heiti Air Stracta, eins og hótelið sem hann rekur á Hellu.

„Margir spá í því af hverju ég valdi það, en það er latneskt orð og mjög gott að segja það á öllum tungum. Nafnið þýðir velgengni og þar sem ég hef notað það hefur það virkað vel. En svo þegar koma fleiri að mun ég ábyggilega ekki fá að láta það heita þessu nafni,“ segir Hreiðar Hermannsson við mbl.is.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert