Snjókoma á Egilsstöðum

Kort/Veðurstofa Íslands

Í nótt nálguðust hitaskil landið úr austri. Fremst í skilunum er úrkoman ýmist snjókoma eða slydda og sem dæmi má nefna að í veðurathugun nú kl. 6 var snjókoma bæði á Egilsstöðum og Dalatanga. Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

„Einnig mun snjóa um tíma á norðanverðu landinu eftir því sem skilin færast vestur á bóginn, sér í lagi á fjallvegum. Sunnan heiða fellur úrkoman í dag sem rigning. Vindáttin í dag er austlæg, strekkingur nokkuð víða, en allhvass með suðurströndinni. 

Áfram er útlit fyrir austanátt á morgun, þó hægari vind en í dag. Hann hangir þurr að mestu norðaustan til, en í öðrum landshlutum má búast við vætu. 

Á fimmtudag er áfram spáð austanátt, víða á bilinu 8-13 m/s, en 13-18 með suðurströndinni. Margir myndu eflaust vilja hafa rólegri vind á sumardaginn fyrsta.

Góðu fréttirnar eru þær að vel ætti að sjást til sólar um tíma á öllu landinu. Hitinn verður eins og best gerist á þessum degi, ætti að ná kringum 15 stig í mörgum landshlutum, svalara þó með austurströndinni þar sem andar beint af hafi. Að lokum ber að taka fram að útlit er fyrir að það fari að rigna á sunnanverðu landinu að kvöldi fimmtudags,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Búast má við slyddu eða snjókomu framan af degi á norðaustanverðu landinu með varasömum akstursskilyrðum.

Greiðfært er að mestu á landinu en þó eru hálkublettir eða hálka á nokkrum fjallvegum á Norðaustur-og Austurlandi. Hálendisleiðir hafa fæstar verið opnaðar en víðast hvar er allur akstur bannaður meðan frost er að fara úr jörð. 

Hálka og éljagangur er á Fjarðarheiði og Fagradal en hálkublettir og éljagangur eru á öðrum fjallvegum og með ströndinni í Djúpavog. Hálkublettir eru á Möðrudalsöræfum, á Hófaskarði og á útvegum í Vopnafirði. Hálka og éljagangur á Vopnafjarðarheiði og Sandvíkurheiði. 

Veðurspá fyrir næstu daga

Austan 10-18 m/s og rigning með köflum S- og V-til í dag. Norðaustan 8-13 á NA-verðu landinu með slyddu eða snjókomu framan af degi, síðan rigningu eða súld. Hlýnandi veður, hiti 5 til 13 stig síðdegis, hlýjast S-lands.
Austan og suðaustan 5-13 á morgun með vætu af og til, en úrkomulítið NA-lands. Hlýnar heldur í veðri.

Á miðvikudag:
Austan- og suðaustanátt, víða 8-13 m/s og rigning með köflum, en úrkomulítið norðaustanlands eftir hádegi. Hiti 6 til 14 stig. 

Á fimmtudag (sumardaginn fyrsta):
Austan 8-13, en 13-18 með suðurströndinni. Þurrt á landinu og bjart nokkuð víða. Fer að rigna sunnan- og austanlands um kvöldið. Hiti frá 7 stigum með austurströndinni, upp í 16 stig á Vesturlandi. 

Á föstudag og laugardag:
Austlæg átt og milt veður. Rigning með köflum, en úrkomulítið vestanlands. 

Á sunnudag og mánudag:
Útlit fyrir norðaustanátt. Dálítil væta fyrir norðan og austan og svalt í veðri, en bjart sunnan heiða og hlýrra að deginum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert