Útköll vegna veðurs og kjötþjófs

Útköll vegna veðurs, kjötstulds og aksturs undir áhrifum fíkniefna voru …
Útköll vegna veðurs, kjötstulds og aksturs undir áhrifum fíkniefna voru á meðal verkefna lögreglu í kvöld. mbl.is/Eggert

Verkefni lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í kvöld voru af ýmsum toga en þar ber hæst útköll í Hafnarfirði, Kópavogi og Breiðholti vegna veðurs sem og tilkynning um stuld á kjöti í miðbænum. 

Um klukkan sjö í kvöld var tilkynnt um plötur sem fuku frá Mosagötu í Garðabæ og um klukkutíma síðar var tilkynnt um skilti sem var að fjúka við verslun Bónuss í Hafnarfirði. Um svipað leyti barst tilkynning um tréplötu sem fauk á rúðu á jarðhæð með þeim afleiðingum að rúðan brotnaði. Um klukkan hálfátta barst lögreglu tilkynning um byggingarefni sem var að fjúka við nýbyggingu í Kópavogi.

Um klukkan fimm síðdegis barst lögreglunni tilkynning um einstakling sem stal kjöti frá sendli er hann var að koma því til skila á hótel í miðbænum. Lögreglan hafði hendur í hári þjófsins og fann kjötið sömuleiðis.  

Rétt fyrir klukkan tíu stöðvaði lögregla ökumann sem reyndist aka undir áhrifum fíkniefna. Auk þess var hann réttindalaus og með ætluð fíkniefni meðferðis.

mbl.is