Ferðaþjónustan verður tíma að jafna sig

Áhrifin af gjaldþroti WOW air munu ekki koma fram að …
Áhrifin af gjaldþroti WOW air munu ekki koma fram að fullu fyrr en í haust. mbl.is/​Hari

Mjög erfitt er að spá fyrir um það hvernig sumarvertíðin verður hjá ferðaþjónustufyrirtækjum landsins. Afleiðingarnar af gjaldþroti WOW air komi ef til vill ekki að fullu fram fyrr en í haust. Þá er ekki hægt að segja að greinin hafi náð jafnvægi eftir þá dýfu sem fylgdi brotthvarfi flugfélagsins.

Kristófer Oliversson, fram­kvæmda­stjóri Center­Hotels og formaður FHG – fyr­ir­tækja í hót­el- og gistiþjón­ustu, segir að sá langi aðdragandi sem var að gjaldþroti WOW hafi ef til vill gefið hótelrekendum tækifæri til þess að undirbúa sig fyrir það hvernig færi. Það sé samt ekki hægt að segja að gjaldþrot WOW hafi reynst minna högg á hótelin en ef til vill hafi verið búist við.

„Auðvitað er mjög alvarlegt að framboð á flugi minnki svona mikið, því það hefur svo mikið að segja. En við vonum að það sé enn eftirspurn og hægt verði að mæta henni smám saman,“ segir Kristófer við mbl.is.

Kristófer Oliversson.
Kristófer Oliversson. Ljósmynd/Aðsend

Í gær bárust fréttir af því að Hreiðar Hermannsson, hótelstjóri Stracta hotels, væri vel á veg kominn með stofnun lággjaldaflugfélags. Aðspurður segir Kristófer að ólíklegt sé að fleiri innan hótelbransans geti tekið höndum saman og komið að slíkri fjárfestingu.

„Hótelgeirinn mun aldrei verða neinn stóraðili í því, það er deginum ljósara. Menn eru enn að komast aftur á lappir eftir verkföllin og gjaldþrotið. Það þarf að átta sig á því með hótelgeirann að ef ríkið hækkar skatta og kjarasamningarnir hækka launin á meðan er samdráttur á gestafjölda, þá eru ekki líkur á að hægt sé að gera mikið. Við getum ekki eytt sömu krónunni tvisvar,“ segir Kristófer.

Enginn að fara á taugum strax

Kristófer segir að greinileg dýfa sé í hótelrekstri í apríl og verði áfram í maí vegna gjaldþrots WOW og verkfallsaðgerða. Hvað sumarvertíðina varðar og framhaldið sé þó erfitt að leggja mat á.

„Mér sýnist bókanir ganga ágætlega. Það er enginn að fara á taugum held ég. Menn eru ekki svartsýnir, en þó raunsæir eins og alltaf. Það er ekki sami uppgangur og hefur verið. Jólin eru búin í þessu og nú þarf að þreyja þorrann. Núna er lag fyrir stjórnvöld að taka til hendinni í skuggahagkerfinu og reyna að koma á heilbrigðu rekstrarumhverfi í gistiþjónustunni,“ segir Kristófer Oliversson.

Reiknað er með 12-16% fækkun ferðamanna í ár miðað við …
Reiknað er með 12-16% fækkun ferðamanna í ár miðað við í fyrra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Áhrifin ekki ljós fyrr en í lok sumars

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, tekur undir að ferðaþjónustufyrirtæki hafi ef til vill getað undirbúið sig fyrir gjaldþrot WOW air vegna þess langa aðdraganda sem fylgdi þar á undan.

„Þó að niðurstaðan hafi verið vond þá er alltaf betra að fá einhverja niðurstöðu heldur en að vera í óvissu mánuðum saman. Það er erfitt fyrir fyrirtæki að geta ekki gert áætlanir inn í framtíðina. En ég held að flestir hafi verið búnir að meta stöðuna og eru nú farnir að vinna í því inn í sumarið,“ segir Jóhannes.

Hefur höggið þá ef til vill verið minna en búist var við?

„Það fer svolítið eftir fyrirtækjum og mér heyrist það mjög mismunandi hvernig þetta leggst á þau. Sumir virðast komast ágætlega út úr þessu miðað við aðstæður, en aðrir mjög illa. Það fer svolítið eftir því í hvaða bransa menn eru,“ segir Jóhannes.

Ekki sé heldur hægt að fullyrða að áhrifin komi fram með mismunandi hætti eftir landssvæðum.

„Mér sýnist þetta vera heilt yfir voða svipað, en hefur kannski haft einna minnst áhrif fyrir austan enn þá. Á þeim svæðum þar sem eru færri ferðamenn hefur þetta kannski minni áhrif strax, en það sést samt ekki fyrr en í lok sumars hvaða áhrif þetta hefur á endanum,“ segir Jóhannes.

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.
Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Spá 12-16% fækkun ferðamanna

Jóhannes útskýrir að þeir ferðamenn sem koma til landsins á eigin vegum hafi verið þeir fyrstu til þess að afbóka eftir gjaldþrot WOW. Hópar sem koma hingað á vegum ferðaskrifstofa afbóka ekki strax, þar sem skrifstofurnar reyna að finna ný flug þar sem búið er að selja í hópferðirnar. Í einhverjum tilfellum er það ekki komið á hreint enn þá hvort slíkt takist, svo þær afbókanir sem gætu fylgt ferðaskrifstofunum eru ef til vill ekki enn komnar fram.

„Það er mjög erfitt að meta stöðuna eins og hlutirnir standa núna. Ég held við munum ekki sjá fyrr en kannski um miðjan júlí hvaða raunverulegu áhrif þetta muni hafa,“ segir Jóhannes, en ljóst er að fækkun ferðamanna verður töluvert högg.

„Við gerum ráð fyrir um 14% fækkun ferðamanna miðað við árið í fyrra. Það er okkar áætlun. Arion banki spáði um 16% fækkun, svo verið er að horfa á 12-16% fækkun almennt. Þetta verður því töluvert högg,“ segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.

mbl.is