Andlát: Jensína Andrésdóttir

Jensína Andrésdóttir er látin, 109 ára að aldri. Hún náði …
Jensína Andrésdóttir er látin, 109 ára að aldri. Hún náði þeim merka áfanga að verða elst allra Íslendinga sem hafa verið búsettir hér á landi. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Jensína Andrésdóttir, sem var elst allra Íslendinga, lést á skírdag, 18. apríl síðastliðinn, 109 ára og 159 daga gömul. Í janúar á þessu ári náði hún þeim áfanga að verða elst allra Íslend­inga sem hafa búið hér á landi. Þá var hún meðal fimmtu elstu íbúa á Norðurlöndunum. Greint er frá andláti Jensínu á Facebook-síðunni Langlífi

Jens­ína fædd­ist í Þorskaf­irði í Reyk­hóla­hreppi í Aust­ur-Barðastrand­ar­sýslu 10. nóv­em­ber 1909 og ólst þar upp með for­eldr­um sín­um, Andrési Sig­urðar­syni bónda og Guðrúnu Sig­ríði Jóns­dótt­ur, og 14 systkin­um sem öll komust á legg nema eitt. Jensína var búsett á Hrafnistu og síðustu rúma tvo áratugi. 

Jensína Andrésdóttir á góðri stundu með forseta Íslands, Guðna Th. …
Jensína Andrésdóttir á góðri stundu með forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni. Ljósmynd/Hreinn Magnússon

Jensína átti Íslandsmetið en Guðrún Íslendingametið

Eldra metið átti Sól­veig Páls­dótt­ir á Höfn í Hornafirði en hún var 109 ára og 69 daga þegar hún dó, haustið 2006. Fyrr á því sama ári hafði Guðfinna Ein­ars­dótt­ir úr Dala­sýslu orðið 109 ára og 58 daga. Fjórði íbúi lands­ins sem hef­ur náð 109 ára aldri var Guðríður Guðbrands­dótt­ir úr Dala­sýslu en hún lifði í 33 daga fram fyr­ir af­mælið.

Önnur ís­lensk kona hef­ur að vísu lifað leng­ur, í 109 ár og 310 daga en hún var fædd í Vopnafirði haustið 1888 og var þriggja ára þegar hún flutti til Kan­ada með for­eldr­um sín­um og systkin­um. „Segja má að Jensína hafi átt Íslandsmetið en Guðrún Íslendingametið,“ seg­ir í færsl­unni á Face­book.

Dóra Ólafsdóttir, sem búsett er í Kópavogi, tekur við af Jensínu sem elsti núlifandi Íslendingurinn en hún varð 106 ára í júlí í fyrra. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert