Bergrún hlýtur Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur

Bergrún Íris Sævarsdóttir hlýtur Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur, en þetta er …
Bergrún Íris Sævarsdóttir hlýtur Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur, en þetta er í fyrsta skipti sem verðlaunin eru afhend. mbl.is/Hari

Bergrún Íris Sævarsdóttir hlaut Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur, sem afhent voru í fyrsta sinn í dag í Reykjavík, bókmenntaborg UNESCO. Verðlaunin eru veitt fyrir frumsamið handrit að barna- eða ungmennabók og voru veitt samhliða Barnabókaverðlaunum Reykjavíkur í Höfða í dag.

Bergrún Íris hlaut verðlaunin fyrir handritið Kennarinn sem hvarf. Dómnefnd skipuðu þær Sabine Leskopf, Halla Þórlaug Óskarsdóttir og Dröfn Vilhjálmsdóttir. Einnig komu að dómnefndastörfum fjórir nemendur af unglingastigi Seljaskóla.

Börn geta speglað sig í lesefninu

í umsögn dómnefndar segir meðal annars að innblásturinn að verðlaununum og valinu var að börn geti speglað sig í lesefni sínu. „„Það sem börnin vilja lesa“ var þess vegna leiðarljós og innblástur í störfum dómnefndar, í anda bóka Guðrúnar Helgadóttur sem bar ávallt virðingu fyrir ungum lesendum ásamt því að draga fram spaugilegar hliðar á umfjöllunarefninu. Þess vegna vóg álit sérstakrar barnadómnefnda einnig þungt. Valið var engu að síður erfitt, þar eð mikill fjöldi spennandi handrita barst.“

Bergrún Íris við afhendingu Barnabókaverðlauna Guðrúnar Helgadóttur í Höfða í …
Bergrún Íris við afhendingu Barnabókaverðlauna Guðrúnar Helgadóttur í Höfða í dag. mbl.is/Hari

„Höfundinum tekst áreynslulaust að skapa atburðarás sem er í senn beint úr raunveruleika barna en samt svo sérstök og ævintýraleg að það vekur athygli og spennu. Gáturnar sem eru settar fram í sögunni fá lesandann til að klæja í fingurgómana, að leysa þær,“ segir einnig í umsögn dómnefndar.

Einelti, einsemd barns, tómstundarstress, barátta um viðurkenningu hópsins og sjálfsmyndina, líf skilnaðarbarnsins, hinsegin málefni og staða barna af erlendum uppruna eru á meðal málefna sem koma fyrir í bókinni og segir í umsögn dómnefndar að handritið fléttar alvarleg málefni algerlega áreynslulaust inn í söguþráðinn.

Kemur út í maí

Kennarinn sem hvarf kemur út í maí og er gefin út af Bókabeitunni. Bergrún Íris Sævarsdóttir er fædd árið 1985 og býr í Hafnarfirði ásamt fjölskyldu sinni. Bergrún útskrifaðist með BA gráðu í listfræði úr Háskóla Íslands 2009, lauk diplómanámi í teikningu frá Myndlistaskólanum í Reykjavík vorið 2012 og sótti sumarskóla í barnabókagerð í Anglia Rushkin, Cambridge School of Art. 

Bergrún hefur alltaf haft áhuga á barnabókum en sá áhugi fékk byr undir báða vængi þegar hún varð móðir haustið 2009. Hún hefur myndskreytt fjölda barnabóka og námsefni, haldið einkasýningar og tekið þátt í samsýningum. Fyrsta bók Bergrúnar sem rithöfundur var barnabókin Vinur minn, vindurinn sem kom út hjá Bókabeitunni haustið 2014 og var tilnefnd til Fjöruverðlaunanna og Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs.

Bergrún Íris Sævarsdóttir (lengst til hægri) ásamt verðlaunahöfum Barnabókaverðlauna Reykjavíkurborgar …
Bergrún Íris Sævarsdóttir (lengst til hægri) ásamt verðlaunahöfum Barnabókaverðlauna Reykjavíkurborgar sem afhent voru í dag. mbl.is/Hari
mbl.is