Breyttar matarvenjur og fleiri á lyfjum

Fólk með bælt ónæmiskerfi er hvatt til að borða ekki …
Fólk með bælt ónæmiskerfi er hvatt til að borða ekki hráan fisk. mbl.is

„Listeríusýkingar eru tiltölulega sjaldgæfar sýkingar. Eins og gjarnan er með sjaldgæfar sýkingar þá sér maður ekki neitt í nokkur ár og svo einhvers konar hrinu næstu árin,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir spurður hvers vegna listeríusýkingum virðist fjölga á síðustu áratugum hér á landi.

Kona á fimmtugsaldri lést á þessu ári vegna listeríusýkingar sem hún fékk um jólaleitið 2018. Konan var með undirliggjandi ónæmisbælingu og hafði neytt bæði grafins og reykts lax um jólin. Árið 2018 greindust þrír einstaklingar með listeríusýkingu og árið áður greindust sjö og létust fjórir þeirra þar af eitt nýfætt barn. Árin 2015 og 2016 greindist enginn. Þetta kemur fram í farsóttarfréttum Embætti landlæknis. 

Þórólfur segir að erfitt sé að segja til um nákvæmlega hver ástæðan sé að tilfellunum hafi fjölgað. Hann bendir á að mun fleiri einstaklingar í dag séu á ónæmisbælandi lyfjum t.d. gigtarsjúklingar og fyrir vikið eigi þeir erfiðara með að vinna á listeríusýkingum en ella einnig hefur neysla á hráum matvörum aukist t.d. á fiski.

Listeríubakterían er alls staðar, hún finnst í dýrum og í jarðvegi en er einkum hættuleg í hráum matvælum, fiski og kjöti. Fólk á ónæmisbælandi lyfjum og með ónæmisbælingu á að gæta vel að sér, borða ekki hráan mat og skola vel allt grænmeti. Heilbrigt fólk ætti ekki að óttast og það er óþarfi fyrir alla hætta að borða hráan mat, segir Þórólfur. 

Erfitt er að rekja uppruna bakteríunnar vegna þess að meðgöngutími hennar er langur. Frá því að fólk fær hana geta einkennin komið fram mörgum vikum seinna. Í tilviki konunnar voru leifar af laxinum til í frysti og hægt var að rækta úr honum bakteríuna. 

Hér má sjá listeríusýkingar á Íslandi frá 1997-2018.
Hér má sjá listeríusýkingar á Íslandi frá 1997-2018. Skjáskot/Farsóttarfréttir Embætti landlæknis
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert