Dæmdur fyrir alvarlega líkamsárás

Héraðsdómur Norðurlands eystra á Akureyri.
Héraðsdómur Norðurlands eystra á Akureyri. mbl.is/Jón Pétur

Héraðsdómur Norðurlands eystra dæmdi í síðustu viku karlmann á fertugsaldri í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir líkamsárás. Maðurinn var ákærður fyrir að hafa slegið annan mann með glasi í höfuðið á skemmtistað með þeim afleiðingum að sá sem varð fyrir árásinni hlaut sex skurði, fimm á enni og einn í nefrót hægra megin við hægri augnkrók, sem sauma þurfti saman með samtals 20 sporum, mar á vinstri öxl og í vinstri holhönd og eymsli yfir bringubeini.

Lögreglu var tilkynnt um líkamsárás á skemmtistað aðfaranótt 24. september 2016. Þegar þangað var komið var alblóðugur maður fluttur á heilbrigðisstofnun til aðhlynningar.

Lögregluþjónar fengu þær upplýsingar að faðir árásarmannsins hefði verið með dónaskap við unnustu brotaþola. Við það hafi brotaþoli reiðst og gefið manninum olnbogaskot í andlitið með þeim afleiðingum að sonur þess sem hlaut olnbogaskotið réðst á hann með glas í hönd.

Árásarmaðurinn játaði að hafa misst stjórn á sér þegar hann varð vitni að því sem fór fram á milli föður hans og mannsins og að hann hafi brugðist rangt við með því að veitast að manninum.

Dómurinn kemst að þeirri niðurstöðu að maðurinn hafi gerst sekur um alvarlega líkamsárás. Hann er dæmdur í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi, til að greiða manninum sem varð fyrir árásinni eina milljón króna í skaðabætur og til að greiða allan sakarkostnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert