„Fólk kemur til að hlusta“

Ragna er búsett í vesturbæ Reykjavíkur og kveðst ekkert rata …
Ragna er búsett í vesturbæ Reykjavíkur og kveðst ekkert rata í Hafnarfirði. „Maður verður bara að ‚googla‘ sig á milli húsa.“ Ljósmynd/Aðsend

„Það er mjög skemmtilegt að spila í svona nánu umhverfi, fólk er nálægt og það myndast persónuleg stemning. Fólk kemur líka til að hlusta en ekki til að drekka bjór eða tala í símann,“ segir tónlistarkonan Ragna Kjartansdóttir, betur þekkt undir listmannsnafninu Cell7, sem kemur fram á tónlistarhátíðinni Heima í Hafnarfirði í kvöld.

Ragna hefur ekki spilað á Heima áður, en þar er sá hátturinn hafður á að Hafnfirðingar bjóða tónlistarfólki og tónleikagestum heim í stofu.

„Ég verð með trommara með mér og verð örugglega að biðja hann að spila aðeins mýkra en venjulega. ‚Acoustic‘ tónlist nýtur sín örugglega vel í þessu umhverfi en það verður forvitnilegt að sjá hvernig mitt sett kemur út í þessum aðstæðum,“ segir Cell7. Hún gaf út nýja plötu undir nafninu Is Anybody Listening? á dögunum og hyggst spila flest lögin af henni ásamt nokkrum eldri.

Jói P og Króli stigu á stokk á Heima 2018.
Jói P og Króli stigu á stokk á Heima 2018. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ragna er búsett í vesturbæ Reykjavíkur og kveðst ekkert rata í Hafnarfirði. „Maður verður bara að ‚googla‘ sig á milli húsa. Það eru tveir tónleikar á hvern listamann svo við þurfum að róta okkur með trommusettið á milli húsa, en það verður bara gaman.“

Markar upphaf Bjartra daga

Tónlistarhátíðin Heima markar upphaf bæjarhátíðarinnar Bjartra daga í Hafnarfirði, en ásamt Cell7 koma þar fram Mugison, Svavar Knútur, Warmland, Ragnheiður Gröndal, Jónas Sig, Á móti sól, Svala, Prins Póló, GÓSS, Rock Paper Sisters, Jón Jónsson og Friðrik Dór og One Bad Day (Eyvindur Karlsson).

Bjartir daga hefjast iðulega á síðasta degi vetrar og standa í nokkra daga. Dagskráin er fjölbreytt og á morgun, sumardaginn fyrsta, geta hátíðargestir meðal annars farið í menningargöngu um Setbergið, kíkt á hádegistónleika í Hafnarborg, spreytt sig í kajaksiglingum hjá Siglingaklúbbnum Þyt og hlýtt á fjölskyldudagskrá á Thorsplani.

Bjartir daga hefjast iðulega á síðasta degi vetrar og standa …
Bjartir daga hefjast iðulega á síðasta degi vetrar og standa í nokkra daga. mbl.is/Eggert

Hafnfirðingar sem og aðrir geta síðan skellt sér í suðrænt sundlaugarpartí á föstudag og gengið í bæinn þar sem vinnustofur listmanna, söfn og verslanir verða opnar fram á kvöld. Á laugardag er öllum velkomið að fylgjast með nýhestamóti Sörla og fá ástandsskoðun á reiðhjólum sínum fyrir framan Bókasafn Hafnarfjarðar. Á sunnudag er stóri plokkdagurinn auk þess sem Ferðafélag Íslands stendur fyrir fjölskyldugöngu á Helgafell.

Dagskrá Bjartra daga má kynna sér í heild sinni hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert