Hildur, Guðni og Rán verðlaunuð

Hildur Knútsdóttir, Guðni Kolbeinsson og Rán Flygering hlutu Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgars …
Hildur Knútsdóttir, Guðni Kolbeinsson og Rán Flygering hlutu Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgars sem afhent voru af Degi B. Eggertssyni borgarstjóra við hátíðlega athöfn í Höfða í dag. mbl.is/Hari

Hildur Knútsdóttir, Guðni Kolbeinsson og Rán Flygering hlutu Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar sem afhent voru af Degi B. Eggertssyni borgarstjóra við hátíðlega athöfn í Höfða í dag.

Í flokki frumsaminna barna- og ungmennabóka hlaut Hildur Knútsdóttir verðlaun fyrir skáldsöguna Ljónið, sem gefin er út af JPV. Ljónið er fyrsta bók í nýjum þríleik eftir Hildi og er hörkuspennandi ungmennasaga sem gerist í samtímanum en teygir anga sína aftur til ógnvekjandi atburða í fortíðinni.

Tvær bækur á leiðinni auk sjónvarpsþáttaraðar

Hildur sló rækilega í gegn með bókum sínum Vetrarfrí og Vetrarhörkur sem þýddar hafa verið á fjölmörg tungumál og verið er að gera sjónvarpsþáttaröð eftir. Ljónið fjallar um Kríu sem er að byrja í MR. Þar þekkir hún engan og enginn veit um það sem gerðist á Akureyri. Hún hefur litlar væntingar en kynnist Elísabetu, og þrátt fyrir strangt nám er menntaskólalífið frábært. Þegar Elísabet finnur gamalt skrín í földum skáp fara þær Kría að rannsaka undarlegt mál stúlku sem hvarf sporlaust fyrir 79 árum. Kría hittir líka hinn dularfulla Davíð sem kemur og fer eins og kötturinn. Brátt kemur svo í ljós að hvarf stúlkunnar gæti haft óvænta tengingu við líf Kríu. Bókin var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í ár.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri veitir Hildi Knútsdóttur Barnabókaverðlaun Reykjavíkur í …
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri veitir Hildi Knútsdóttur Barnabókaverðlaun Reykjavíkur í flokki ungmennabókmennta. mbl.is/Hari

Í flokki þýddra barna- og ungmennabóka hlaut Guðni Kolbeinsson verðlaun fyrir Bækur duftsins: Villimærin fagra eftir Philip Pullman. Bókin er sú fyrsta í þríleik Pullmans um Malcolm Polstead. Útgefandi er Mál og menning. Guðni Kolbeinsson er margverðlaunaður þýðandi og hlaut Sögustein IBBY árið 2015 fyrir framlag sitt til barnabóka og barnamenningar.

Guðni Kolbeinsson hlaut verðlaun fyrir þýðingu á Bækur duftsins: Villimærin …
Guðni Kolbeinsson hlaut verðlaun fyrir þýðingu á Bækur duftsins: Villimærin fagra eftir Philip Pullman. mbl.is/Hari

Þá hlaut Rán Flygering verðlaun fyrir myndlýsingar fyrir Söguna um Skarphéðin Dungal sem setti fram nýjar kenningar um eðli alheimsins eftir Hjörleif Hjartarson. Útgefandi er Angústúra.

Rán er myndskreytir og grafískur hönnuður frá Reykjavík og starfar sjálfstætt að verkefnum víða um heim, myndskreytir, ritstýrir og kemur fram á hinum ýmsu listahátíðum svo fátt eitt sé nefnt. Að loknu stúdentsprófi árið 2006 lærði Rán grafíska hönnun við Listaháskóla Íslands og fór í framhaldsnám til Oslóar þaðan sem hún lauk Mastersnámi í hönnun árið 2015.

Auk Barnabókaverðlauna Reykjavíkur voru Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur afhent í fyrsta sinn í dag. Verðlaunahafi er Bergrún Íris Sævarsdóttir fyrir handrit að bókinni Kennarinn sem hvarf sem kemur út í næsta mánuði.

Nemendur frá Tónlistarskólanum DoReMí fluttu tónlistaratriði við afhendingu Barnabókaverðlauna Reykjavíkur …
Nemendur frá Tónlistarskólanum DoReMí fluttu tónlistaratriði við afhendingu Barnabókaverðlauna Reykjavíkur í dag. mbl.is/Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert