Sagði vin eiga vespuna

Maðurinn sagði vin sinn eiga vespuna og getur sá hinn …
Maðurinn sagði vin sinn eiga vespuna og getur sá hinn sami sótt hana á lögreglustöð. mbl.is/Hari

Lögreglan hafði afskipti af manni sem teymdi vespu um hverfi 105 í nótt og þegar lögreglumenn ræddu við manninn fundu þeir sterka fíkniefnalykt af honum. Í ljós kom að hann var með fíkniefni á sér og átti ekkert í vespunni. 

Í dagbók lögreglu kemur fram að maðurinn hafi framvísað fíkniefnum og við öryggisleit hafi fundist meiri fíkniefni hjá honum. Maðurinn sagði vin sinn eiga vespuna og var hún haldlögð. Manninum var kynnt að skráður eigandi vespunnar gæti sótt gripinn á lögreglustöð. 

Seint í gærkvöldi höfðu öryggisverðir í miðborginni (hverfi 101) samband við lögreglu vegna innbrots í kaffihús en þeir voru búnir að umkringja vettvanginn og sáu mann innandyra. 

Lögreglan handtók mann í annarlegu ástandi á vettvangi og er hann vistaður í fangageymslu fyrir rannsókn málsins. Maðurinn hafði stolið peningum og stungið á sig. Peningarnir fundust á manninum við öryggisleit fyrir vistun í fangageymslu. Einnig fundust fíkniefni hjá manninum.

Í nótt tilkynntu starfsmenn í verslun í miðborginni um tvo menn sem voru að ryðja vörum úr hillum og hóta starfsfólki. Mennirnir voru farnir er lögregla kom á vettvang en líklega er vitað hverjir voru að verki samkvæmt myndavélakerfi verslunarinnar.

Um miðnætti hafði starfsfólk hótels í miðborginni (101) samband við lögreglu vegna þriggja gesta sem voru að neyta fíkniefna á herbergi hótelsins og þeim hafi verið vísað út af hótelinu. Er lögreglumenn komu á vettvang var einn farinn og hinir tveir að fara af hótelinu en ekki kemur fram í dagbók lögreglu hvert framhald málsins verður.

Í nótt var lögreglu tilkynnt um fjóra menn að stela gaskút við heimili en mennirnir hafa ekki fundist þrátt fyrir leit. Atvikið átti sér stað í austurhluta borgarinnar (hverfi 108).

Þrír ökumenn voru stöðvaðir fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna í Reykjavík í gærkvöldi og í nótt. Einn þeirra (sá var stöðvaður í hverfi 104) var að auki með fíkniefni á sér og var ekki með ökuskírteini meðferðis. Einnig var ljósabúnaður bifreiðarinnar ekki í lagi. Einn var stöðvaður í hverfi 110 en hann var einnig með fíkniefni á sér sem og farþegi í bifreiðinni. Þriðji ökumaðurinn var stöðvaður í hverfi 112.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert