„Þeir sem kusu voru alla vega sáttir“

Björn Snæbjörnsson formaður SGS.
Björn Snæbjörnsson formaður SGS. mbl.is/Eggert

„Það er ánægjulegt að öll félögin samþykktu samninginn. Flest öll með miklum meirihluta,“ segir Björn Snæbjörnsson formaður Starfsgreinasambandsins. Hann bendir á að 17 af 19 félögum sem kusu um lífskjarasamninginn hafi yfir 70% samþykkt samninginn.  

„Þeir sem kusu voru alla vega sáttir,“ segir Björn. Þátttaka í atkvæðagreiðslunni var ekki mikil. Í fjórum félögum af 19 greiddu 20% félagsmanna atkvæði. Þátttakan var mun minni í öðrum félögum. Kjörsóknin var 12,78% að meðaltali hjá öllum 19 félögunum.  

„Auðvitað hefði maður viljað sjá betri þátttöku. Samningurinn var vel kynntur fyrir fólki,“ segir Björn og bætir við að það tók innan við mínútu að greiða atkvæði um samninginn. Hann telur ólíklegt að atkvæðagreiðslan um samninginn hafi farið fram hjá fólki. Hann bendir á að ef fólk er sátt við samninginn eru minni líkur á að það kjósi en ef það væri ósátt. Kannski er þögn sama og samþykki, segir Björn.

Heilt yfir hafi hann heyrt á félagsmönnum að þeir væru sáttir við samninginn. Margir þeirra hafi þó bent á að þeir væru „búnir að fá upp í kok á umfjöllun um kjarasamningana í fjölmiðlum“. Björn segir að þetta hafi komið honum á óvart, sjálfur fagni hann umræðunni. 

„Nú eigum við eftir að gera samninga við ríkið og við sveitarfélögin. Við vindum okkur núna í það. Vonandi fer það á flug fljótlega,“ segir hann aðspurður um næstu skref. 

mbl.is