Unnið að nýrri Plánetu-þáttaröð

Sir David Attenborough verður 93 ára gamall í maí og …
Sir David Attenborough verður 93 ára gamall í maí og er enn í fullu fjöri. AFP

Dvöl Sir David Attenborough hér á landi tengist upptökum á nýrri þáttaröð sem mun bera heitið One Planet, Seven Worlds (Ein pláneta, sjö heimar) samkvæmt svari almannatengsladeildar breska ríkisútvarpsins, BBC, við fyrirspurn mbl.is. Þættirnir verða teknir til sýninga á BBC One og verða sjö talsins.

„Hver klukkutímalangur þáttur mun flytja áhorfendur til einnar heimsálfu og segja söguna af stórbrotnu dýralífi hennar og einkennandi landslagi,“ segir um hina væntanlegu þáttaröð á vef BBC. 

Þar segir einnig að þáttaröðin muni snúast um að sýna hvernig mismunandi lífsskilyrði heimsálfanna sjö hafi mótað það dýralíf sem fyrirfinnst í hverri og einni þeirra og að nýjustu myndbandsupptökutækni verði beitt til þess að koma áður óþekktum sögum af dýralífi til skila til áhorfenda heima í stofu.

Hvað Attenborough er nákvæmlega að taka upp á Íslandi fást þó engin svör um og verður það væntanlega bara að koma í ljós er þáttaröðin fer í loftið, en mbl.is hefur heyrt af því að Attenborough hafi flogið ásamt upptökuliði sínu um landið í leiguflugvélum.

BBC birti stiklur úr alls fimm væntanlegum Plánetu-þáttaröðum á YouTube í febrúar síðastliðnum, þar á meðal þeirri sem Attenborough og tökulið BBC hafa unnið að hér á landi.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert