Bára birtir reikningsyfirlit sín

Bára Halldórsdóttir birti í kvöld reikningsyfirlit sín og segir að …
Bára Halldórsdóttir birti í kvöld reikningsyfirlit sín og segir að henni líði eins og hún sé föst í leiðinlegri forræðisdeilu. mbl.is/Eggert

Bára Halldórsdóttir birti í kvöld reikningsyfirlit tveggja reikninga í sinni eigu, á tímabilinu 15. nóvember til 15. desember 2018, en eins og greint var frá í dag hafði lögmaður fjögurra þingmanna Miðflokksins farið fram á að fá upplýsingar frá fjármálafyrirtækjum um greiðslur inn á reikning hennar á því tímabili.

Reikningsyfirlit Báru voru fyrst birt á vef Fréttablaðsins, en samkvæmt yfirlitunum bárust engar óútskýrðar greiðslur frá fyrirtækjum eða einstaklingum inn á reikninga Báru á tímabilinu.

Bára segir við Vísi í kvöld að hún hafi ákveðið að birta greiðslurnar sjálf af því að henni „fannst þetta svo mikið bull í þeim“ og bætti við að hún væri „hætt að skilja þessa menn.“ Þá sagði hún að henni liði eins og hún stæði í leiðinlegu forræðismáli.

Sýn greiddi 40.000 kr. fyrir myndefni af Klaustri

Samkvæmt frétt Fréttablaðsins útskýrði Bára nokkrar hæstu greiðslurnar sem bárust inn á reikning hennar á tímabilinu. Hún fékk rúmar 300.000 krónur frá Tryggingastofnun, sem voru örorkubætur og desemberuppbót frá stofnuninni. Þá bárust henni 50 þúsund krónur frá Behcet‘s á Íslandi inn á reikning Báru, vegna flugferðar sem hún fór í á vegum samtakanna, en hún er með Behcet‘s-sjúkdóminn.

Þá greiddi Sýn hf. Báru 40.000 kr. fyrir afnot af myndefni sem hún tók á barnum Klaustri kvöldið margrædda, er Bára sat þar og tók upp samtöl sex þingmanna, sem þá voru í tveimur flokkum, en eru nú allir í Miðflokknum. Myndefnið var notað í fréttum Stöðvar 2.

Lögmaður Miðflokksmanna hafði einnig krafist þess, við Persónuvernd, að fá frekara efni úr öryggismyndavélunum Klaustur og Kvosarinnar Downtown Hostel í sömu byggingu, frá kvöldi 20. nóvember.

Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar sagði við mbl.is í dag að krafan verði afgreidd á stjórnarfundi Persónuverndar um miðjan dag á mánudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert