Ekkert fundist sem styður leka til RÚV

Már Guðmundsson seðlabankastjóri.
Már Guðmundsson seðlabankastjóri. mbl.is/Árni Sæberg

Samkvæmt því sem fram kemur í svari Seðlabanka Íslands til Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra hefur verið farið yfir afrit gagna í tölvupósthólfi Más Guðmundsssonar bankastjóra og pósthólfi fyrrum aðstoðarbankastjóra á tímabilinu 1. janúar 2012 til 31. mars 2012. Sú skoðun hefur ekki leitt neitt í ljós sem „styður við að Ríkisútvarpinu hafi verið veittar trúnaðarupplýsingar [um fyrirhugaða húsleit hjá Samherja] og að seðlabankastjóri eða aðstoðarseðlabankastjóri hafi haft um það vitneskju og hvað þá heimilað.“

Meint upplýsingagjöf starfsmanna Seðlabankans til Ríkisútvarpsins varðandi húsleitina hjá Samherja var á meðal þriggja atriða sem forsætisráðherra óskaði sérstaklega eftir nánari upplýsingum, skýringum og gögnum um frá Seðlabankanum, í kjölfar þess að henni barst greinargerð bankaráðs Seðlabanka Íslands um mál Samherja hf. 21. febrúar síðastliðinn.

Tryggvi Gunnarsson umboðsmaður Alþingis beindi því sérstaklega til Katrínar að ástæða væri til að óska eftir nánari upplýsingum frá Seðlabankanum um meinta upplýsingagjöf til fréttastofu RÚV í aðdraganda húsleitarinnar.

Hin tvö atriðin sem forsætisráðherra óskaði nánari skýringa á lúta annars vegar að fyrirhugðum úrbótum í stjórnsýslu Seðlabanka Íslands sem boðaðar voru í greinargerð bankaráðs og hins vegar að fyrirliggjandi afstöðu ríkissaksóknara frá árinu 2014 til gildis refsiheimilda, sem ítarlega var fjallað um í áliti umboðsmanns Alþingis frá 22. janúar.

Bréfaskipti opinberuð síðdegis í dag

Þessum upplýsingum óskaði Katrín eftir 15. mars síðastliðinn og svar barst frá Seðlabankanum 12. apríl, en bréf Seðlabankans er undirritað af seðlabankastjóra og Rannveigu Júlíusdóttur framkvæmdastjóra gjaldeyriseftirlits bankans.

Bréfaskiptin á milli aðila hafa nú verið gerð opinber á vef stjórnarráðsins, en þó hafa nöfn lögaðila og einstaklinga verið afmáð úr þeim hluta sem birtur er. Sá hluti svarbréfs bankans, sem lýtur almennt að greinargerð bankaráðs Seðlabanka Íslands um mál Samherja hf., hefur einnig verið afmáður.

Bréfaskiptin á milli Seðlabankans og forsætisráðherra hafa nú verið gerð …
Bréfaskiptin á milli Seðlabankans og forsætisráðherra hafa nú verið gerð opinber á vef stjórnarráðsins, mbl.is/Árni Sæberg

„Er það afstaða ráðuneytisins að rétt sé að Seðlabankinn taki afstöðu til þess, ef á reynir, hvort heimilt sé að veita opinberan aðgang að þeim hluta svarbréfsins, sem einkum varðar mál þess tiltekna aðila, með hliðsjón af þagnarskyldureglum sem við eiga, sbr. m.a. 35. gr. laga nr. 36/2001, um Seðlabanka Íslands. Sama á við um aðgang að gögnum sem fylgdu svarbréfinu,“ segir á vef stjórnarráðsins, en forsætisráðuneytið mun á næstu vikum leggja endanlegt mat á efnisatriði málsins og það hvort tilefni sé til frekari gagnaöflunar eða viðbragða á grundvelli athugunar ráðuneytisins.

Svarbréf Seðlabankans til Katrínar er 56 blaðsíður að viðauka meðtöldum, en blaðsíður 31-44 eru algjörlega afmáðar, en þar er fjallað almennt um greinargerð bankaráðs Seðlabanka Íslands vegna Samherjamálsins og bókanir sem henni fylgdu.

Bréf Seðlabankans til Katrínar 12. apríl

Bréf Katrínar til Seðlabankans 15. mars

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert