Enginn neyðist til að sofa úti

Enginn á að þurfa að sofa úti í Reykjavík nema …
Enginn á að þurfa að sofa úti í Reykjavík nema hann velji það sjálfur. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Það er forgangsmál hjá velferðarsviði Reykjavíkurborgar að leysa húsnæðisvanda þeirra sem eru án heimilis í Reykjavík. Að enginn neyðist til að sofa úti nema viðkomandi óski þess sjálfur, segir Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður velferðarráðs.

Eins er mikilvægt að sinna heilbrigðisþjónustu fyrir þennan hóp og að bjóða fólki meðferð vegna neyslu. Þetta kallar á náið samstarf á milli félagsþjónustu sveitarfélaga, heilbrigðisþjónustu ríkisins, Fangelsismálastofnunar og fleiri stofnana samfélagsins, segir hún. Fjallað var um málefni heimilislausra á opnum fundi á vegum velferðarráðs í morgun.

Í framtíðarsýn Reykjavíkurborgar í velferðarmálum segir að allir íbúar hafi jöfn tækifæri til að lifa góðu og mannsæmandi lífi og enginn Reykvíkingur neyðist til að sofa úti.

Þetta verði meðal annars gert með því að koma á laggirnar 15 neyðarrýmum fyrir unga vímuefnaneytendur og að stofnaður verði formlegur samráðshópur aðila í nærþjónustu til að vakta ástand og staði í Reykjavík.

Að enginn þurfi að dvelja lengi í neyðarhúsnæði. Að enginn sem er heimilislaus útskrifist af stofnun eða verði borinn út úr húsnæði án þess að annað úrræði standi til boða.

Til þess að þetta verði að veruleika þarf að fjölga rýmum í sértæku húsnæði fyrir heimilislausa með miklar og flóknar þjónustuþarfir. Svo sem með smáhýsum og Félagsbústöðum verði falið að kaupa 20 íbúðir sem verði úthlutað í þjónustu fyrir heimilislausa og sólarhringsþjónustu fyrir konur. Jafnframt verði opnaður íbúðarkjarni fyrir sex tvígreindar konur (fíkn og geðsjúkdóma).

Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður velferðarráðs Reykjavíkur.
Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður velferðarráðs Reykjavíkur. mbl.is/Golli

Valgerður Rúnarsdóttir, forstjóri sjúkrahússins Vogs, fagnar þessum framtíðaráformum Reykjavíkurborgar en 38% þeirra sem komu á Vog árið 2017 höfðu ekki húsnæði til umráða, alls 629 manneskjur. 14% höfðu ekkert húsnæði, 225 einstaklingar, og 36 voru á útigangi.

Hún segir að húsnæðisleysi geti verið falið, til að mynda fólk sem er háð öðrum, upp á aðra komið, svo sem ættingja, og standa höllum fæti. Hún segir mikilvægt að huga að húsnæði þeirra sem eru að koma úr meðferð og hafa vilja, löngun og tækifæri til breytinga.

Fólk fái tækifæri til sjálfstæðis

Valgerður segist þar ekki vera að tala um kröfu um bindindi heldur tækifæri til sjálfstæðis, standa á eigin fótum, virðingu, virkni og þátttöku í lífi einstaklingsins. Þeir sem eru með fíknisjúkdóm og/eða fleiri sjúkdóma eigi sama rétt á þjónustu og aðrir sem eru veikir. Húsnæði sé grundvallaratriði hér og ekki megi skilja þennan hóp eftir þegar kemur að aðstoð. Hér vanti sárlega úrræði fyrir konur sambærilegt áfanga­heim­ilinu VIN, sem Reykjavíkurborg rekur í sam­starfi við SÁÁ, en þar eru 20 her­bergi fyr­ir karla.

Þetta kom fram á fundi velferðarráðs Reykjavíkur í morgun þar sem fjallað var um málefni heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir. Frekar verður fjallað um fundinn á mbl.is um helgina.

Valgerður Á. Rúnarsdóttir, forstjóri Sjúkrahússins Vogs.
Valgerður Á. Rúnarsdóttir, forstjóri Sjúkrahússins Vogs. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is