Fundað um framkvæmd aðgerða

Katrín Jakobsdóttir.
Katrín Jakobsdóttir. mbl.is/​Hari

Unnið er í Stjórnarráðinu að undirbúningi þess að hrinda í framkvæmd þeim 45 atriðum sem fram komu í yfirlýsingu sem ríkisstjórnin gaf í tengslum við samninga á almennum vinnumarkaði. Forsætisráðherra hefur boðað til fundar hagsmunaaðila um miðjan maí til að fara yfir stöðu mála og ræða framkvæmdina.

„Ég fagna því að búið er að samþykkja samningana. Í þeim felst ný nálgun til farsældar fyrir launafólk. Þetta er áfangi og nú tekur við vinna af hálfu ríkisvaldsins við framkvæmd á þeirri yfirlýsingu sem við gáfum. Við erum byrjuð að vinna að því,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra þegar leitað er álits hennar á niðurstöðu atkvæðagreiðslna meðal félagsmanna stéttarfélaga og atvinnurekendasambanda um nýjan kjarasamning, svokallaðan lífskjarasamning.

„Vinnan er enn á byrjunarstigi. Við áttum okkur á því að heilmikil vinna er eftir. Ég sé fyrir mér núna að ráðuneytin fylgist með verkefnunum og geri áætlanir um það hvernig unnið verði að þeim og á hvaða tíma. Verður gerð grein fyrir því á fundi með öllum aðilum samninganna og sveitarfélögum og samtökum opinberra starfsmanna. Aðgerðirnar eru almennar og gagnast öllum, sama hvar þeir eru starfandi,“ segir Katrín.

„Það var metnaðarmál hjá mér að breyta samskiptum við aðila vinnumarkaðarins. Hugsunin er að halda þessu samtali áfram og koma samskiptunum í fastara form enda tel ég að það hafi skilað árangri,“ segir Katrín Jakobsdóttir.

Kröfur um að flýta lækkun

Kröfur hafa komið fram um að skattabreytingar þurfi að koma hraðar til framkvæmda en ríkisstjórnin hefur áformað. Það hefur meðal annars komið fram í yfirlýsingu Drífu Snædal formanns ASÍ og Sólveigar Önnu Jónsdóttur, formanns Eflingar og formanns efnahags- og skattanefndar ASÍ.

Forsætisráðherra segir að krafan komi sér ekki á óvart. „Við höfum ekki lofað neinu öðru en fram kemur í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar en eigum von á nýrri hagspá í byrjun maí og munum þá fara yfir hana í tengslum við yfirlýsinguna,“ segir hún. Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er sagt að komið verði á þriggja þrepa skattkerfi með nýju lágtekjuþrepi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert