Grunaður um brot á nálgunarbanni

AFP

Maður í annarlegu ástandi var handtekinn síðdegis í gær þar sem hann var í óleyfi í stigagangi fjölbýlishúss í hverfi 111 (Breiðholti). Maðurinn er  grunaður um brot á nálgunarbanni og var hann vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.

Lögreglunni var tilkynnt um opinn eldi í húsagarði í sama hverfi (111) síðdegis í gær. Húsráðandi hafði þarna kveikt í spýtum og var honum gert að slökkva eldinn þar sem ekki væri heimild fyrir þessu.

Maður var handtekinn í Mosfellsbæ (póstnúmer 270) grunaður um líkamsárás og eignaspjöll um kvöldmatarleytið. Maðurinn var vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu. Ekki er vitað um meiðsl árásarþola.

Skömmu eftir hádegi í gær var tilkynnt um innbrot á heimili í Mosfellsbæ þar sem húsráðendur voru að heiman. Innbrotsþjófarnir höfðu brotið glugga og farið þannig inn, rótað í öllu og stolið verðmætum.

Lögreglan hafði afskipti af pari í hverfi 105 (austurbær) síðdegis í gær þar sem þau höfðu ekið bifreið sem var ekki með samstæð skráningarnúmer að framan og aftan. Parið er grunað um nytjastuld bifreiðar, akstur undir áhrifum fíkniefna, akstur án réttinda, þ.e. svipt ökuréttindum, og vörslu fíkniefna. Parið var vistað fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.

Í sama hverfi (105) stöðvaði lögreglan tvo ökumenn í gærkvöldi en annar þeirra er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna og akstur án réttinda, þ.e. sviptur ökuréttindum. Hinn er grunaður um ölvun við akstur. Í nótt var síðan ökumaður sem er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna stöðvaður í hverfi 104 (austurbær). Í hverfi 108 (austurbær) var síðan ökumaður sem er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna og akstur án réttinda stöðvaður í nótt. Bifreiðin reyndist vera ótryggð og voru skráningarnúmerin klippt af bifreiðinni.

Um miðnætti voru tveir menn handteknir í Kópavogi (póstnúmer 200) grunaðir um vörslu og dreifingu fíkniefna. Mennirnir eru einnig grunaðir um ólöglega dvöl í landinu og voru þeir vistaðir fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.

Lögreglan endaði á að handataka mann í annarlegu ástandi í sama hverfi um þrjú í nótt þar sem lögreglan hafði þurft að hafa ítrekuð afskipti af honum. Maðurinn er vistaður sökum ástands í fangageymslu lögreglu.   

Tveir ökumenn í Árbæ voru síðan stöðvaðir í gærdag undir áhrifum fíkniefna við aksturinn. Hvorugur þeirra er með ökuréttindi og annar þeirra hefur aldrei fengið ökuréttindi en hinn er sviptur þeim. Einn ölvaður ökumaður var síðan stöðvaður í Breiðholti í nótt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert