Norðanhret í vændum

Kort/Veðurstofa Íslands

Veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands segir að veðrið í dag verði áfram svipað og var í gærkvöldi og nótt. Fremur litlir úrkomubakkar koma inn á landið og eftir þeir minni háttar skúrir. Yfirleitt þurrt fyrir norðan og sökum þess hve austlægur vindurinn er er Austfjarðaþokan aldrei langt undan í þeim landshluta. Heldur lægri hitatölur en voru í gær en engu að síður vel viðunandi. 

„Um miðja næstu viku eru spár að gera ráð fyrir norðanhreti en töluverður munur er á hversu mikil kólnunin er í spám helstu reiknistofa í veðurfræði en samt sem áður mun kólna talsvert frá sem nú er. Þannig að kannski er vetur konungur ekki alveg búinn að sleppa takinu enda algengt að það leggi í norðankulda í maí og komandi maímánuður virðist engin undantekning á því,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Veðurspá fyrir næstu daga

Austlæg átt, 5-15 m/s, hvassast syðst og um tíma einnig á Vestfjörðum. Skýjað og skúrir sunnan til en rigning með köflum um tíma síðdegis og fram á kvöld. Lengst af þurrt fyrir norðan en líkur á vætu þar um tíma síðdegis. Þokusúld á köflum á Austfjörðum. Svipað veður á morgun en fer að rigna austanlands annað kvöld. Hiti víða 8 til 15 stig, en svalara við austurströndina.

Á laugardag:
Austlæg átt, 8-15 m/s, hvassast syðst. Dálítil rigning á víð og dreif og hiti 6 til 14 stig, hlýjast á V-landi. 

Á sunnudag:
Suðaustlæg átt, 3-10 m/s og rigning á köflum, en þurrt að mestu fyrir norðan. Hvassari og samfelld rigning SV-lands um kvöldið. Hiti 6 til 13 stig, svalast á Austfjörðum. 

Á mánudag og þriðjudag:
Austlægar áttir og dálítil væta öðru hvoru, einkum S- og A-lands, en áfram milt veður. 

Á miðvikudag:
Hæg austlæg átt, bjart með köflum og milt veður að deginum, en útlit fyrir norðanátt um kvöldið með skúrum eða slydduéljum fyrir norðan og kólnandi veðri. 

Á fimmtudag:
Útlit fyrir kalda norðlæga átt, dálítil él og hiti um frostmark, en suðaustlægari SV-til, rigning á köflum og hiti að 6 stigum að deginum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert