Ópal undir tíðu eftirliti MAST

Úr verksmiðju Ópals.
Úr verksmiðju Ópals. mbl.is/​Hari

Matvælastofnun hefur fylgst grannt með framleiðslu hjá Ópali sjávarfangi síðan í ljós kom að afurðir frá fyrirtækinu væru listeríusmitaðar og gera má ráð fyrir að fyrirtækið falli um framleiðsluflokk.

Þetta staðfestir Hjalti Andrason, upplýsingafulltrúi Matvælastofnunar, í samtali við mbl.is. Greint var frá því í gær að Ópal hefði brugðist seint og illa við tilmælum stofnunarinnar um að taka vörur sínar af markaði.

Að sögn Hjalta eru flestir framleiðendur samvinnuþýðir þegar atvik sem þessi koma upp. Í þessu tilfelli hafi MAST hins vegar þurft að beita stjórnsýsluákvörðun í málinu, sem mbl.is hefur undir höndum. Hún var send Ópali 5. febrúar og fyrirtækinu gefinn andmælafrestur til hádegis daginn eftir. Á meðan MAST var að fara yfir andmæli fyrirtækisins tilkynnti Ópal hins vegar að fyritækið hefði ákveðið að innkalla graflax frá fyritækinu, en listeríugildi í afurðinni hafði mælst langt yfir mörkum.

Gæti fallið um tvo framleiðsluflokka

Birgir Sævar Jóhannsson, framkvæmdastjóri Ópals, hafði hins vegar hreyft andmælum við innköllun á tveimur öðrum vörum fyrirtækisins í tölvupóstsamskiptum sem mbl.is hefur einnig undir höndum, en allar vörur fyrirtækisins voru að endingu innkallaðar 12. febrúar.

Matvælastofnun hefur ekki víðtækar heimildir til þess að beita fyrirtækið viðurlögum, en Hjalti segir að þunga eftirlitskerfis stofnunarinnar sé jafnan beitt í tilvikum sem þessum.

„Við erum með þrjá framleiðsluflokka, A B og C, og fyrirtæki byrja öll í flokki B og fá 100% eftirlitstíma. Ef fyrirtæki standa sig vel fara þau upp í flokk A og minnka eftirlitstíma um 50%, og ef þau standa sig illa falla þau í flokk C. Ef um endurtekin frávik er að ræða falla þau um flokk og fyrirtæki í flokki C fá 150% eftirlit,“ útskýrir Hjalti.

„Með þessu kerfi getum við beitt þunga eftirlitsins þar sem þörfin er mest og sömuleiðis er þetta gulrót fyrir matvælaframleiðendur. Þeir sem standa sig vel frá minna eftirlit og borga þar af leiðandi lægra eftirlitsgjald á meðan þeir sem standa sig illa eru að borga margfalt hærra eftirlitsgjald og fá tíðara eftirlit.“

Hjalti segir að eftirlit með Ópali hafi verið mjög títt frá því að listeríumálið kom upp en að tíma taki að reikna framleiðsluflokkana upp á nýtt.

Ópal var í flokki A og segir Hjalti að ætla megi að fyrirtækið falli um flokk. Aðspurður segir hann að fyrirtæki geti fallið um tvo flokka í einu, það fari eftir alvarleika frávika og hvernig og hversu hratt brugðist sé við tilmælum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert