Fengu lyf frá allt að 27 læknum

Fólkið fékk ávísað miklu magni lyfja frá sex til 27 …
Fólkið fékk ávísað miklu magni lyfja frá sex til 27 læknum síðustu tólf mánuðina fyrir andlátið. AFP

Alls voru 55 lyfjatengd andlát til skoðunar hjá embætti landlæknis í fyrra og hafa þau aldrei verið fleiri á einu ári. Fyrstu tvo mánuði ársins 2019 voru 6 andlát til skoðunar hjá embættinu og það það sem einkennir þessi andlát er hversu mikið magn lyfja þetta fólk var að fá ávísað frá læknum, segir Ólafur B. Einarsson, verkefnastjóri í lyfjateymi embættis landlæknis.

Þessir sex einstaklingar fengu ávísað lyfjum í miklu magni frá 6 til 27 læknum síðustu tólf mánuðina fyrir andlát.

Ólafur B. Einarsson hjá embætti landlæknis segir að ef læknar …
Ólafur B. Einarsson hjá embætti landlæknis segir að ef læknar reyni að draga úr ávísunum lyfja til þeirra sem eru í vanda leiti þeir til annarra lækna. mbl.is/Hari

Þetta sýnir hvernig aðgangur einstaklinga í miklum vanda að lyfjum er óheftur. Til að embættið gæti brugðist við og gert athugasemdir við ávísanir til þessara einstaklinga hefði þurft að senda bréf til hundruð lækna sem hafa ávísað til einstaklinga í sambærilegu magni. Ef læknir reynir að trappa niður ávísanir er mjög algengt að sjúklingar í vanda leiti til annarra lækna, segir Ólafur.

Rúmlega 2.600 einstaklingar fengu ávísað yfir eitt þúsund dagskömmtum (sem er meira en þrefaldur skammtur hvern dag) árið 2018. Staðan hefur batnað eftir að læknar fengu aðgang að lyfjagagnagrunni en við eigum enn langt í land til að notkunin hér á landi verði sambærileg og í nágrannalöndunum, segir Ólafur B. Einarsson, verkefnastjóri hjá lyfjateymi embættis landlæknis.

Líkt og fram kemur í skýrslu embættis landlæknis varðandi lyfjatengd andlát hefur embættið eftirlit með ávísunum lyfja. Hluti af því eftirliti felst í að gera athugun á lyfjaávísunum til þeirra sem hafa látist þar sem grunur leikur á að andlát megi rekja til lyfjaeitrunar.

Í slíkum tilvikum eru lyfjaávísanir til viðkomandi sjúklinga skoðaðar tólf mánuði fyrir andlát. Leitað er skýringa hjá hlutaðeigandi lækni ef tilefni þykir til, t.d. stórir lyfjaskammtar, óeðlileg lyfjasamsetning eða ef spurningar vakna um hvort reglum sem gilda um ávísanir og afgreiðslu lyfja hafi ekki verið framfylgt.

Fentanyl er eitt þeirra lyfja sem fólk hefur ofskammtað á …
Fentanyl er eitt þeirra lyfja sem fólk hefur ofskammtað á Íslandi. AFP

Lengst af var áhersla eftirlits embættisins á ávísanir ávanabindandi lyfja en frá árinu 2016 hafa ávísanir annarra lyfja einnig verið til skoðunar í tengslum við lyfjatengd andlát, t.d. þunglyndislyfja og geðrofslyfja. Málum vegna lyfjatengdra andláta hefur því fjölgað hjá embættinu frá árinu 2016.

Fleiri andlát eru að jafnaði til athugunar hjá embættinu heldur en þau sem á endanum eru skráð í dánarmeinaskrá með lyfjaeitrun sem undirliggjandi dánarorsök (lyfjatengd andlát). Til að mynda voru 34 andlát til rannsóknar árið 2017 en 30 þeirra eru rakin til lyfjaeitrana. Af þeim voru 24 karlar og 6 konur. Flestir voru á aldrinum 30-44 ára eða 16 einstaklingar. Sex voru yngri en þrítugt en 24 voru 30 ára og eldri er þeir létust. 

Svala Jóhannesdóttir, verkefnastýra Frú Ragnheiðar, segir að skaðaminnkun snúist fyrst …
Svala Jóhannesdóttir, verkefnastýra Frú Ragnheiðar, segir að skaðaminnkun snúist fyrst og fremst um að bjarga mannslífum. mbl.is/Valgarður Gíslason

Eitt helsta markmið skaðaminnkunar þegar kemur að neyslu vímuefna er að halda fólki á lífi, segir Svala Jóhannesdóttir, verkefnastýra Frú Ragnheiðar.  Hún var meðal ræðumanna í velferðarkaffi velferðarsviðs Reykjavíkurborgar í gærmorgun.

Innan tíðar verður lögð fram til samþykktar ný stefna Reykjavíkurborgar í málefnum heimilislausra til ársins 2025 með áherslu á húsnæði, snemmtæka íhlutun, forvarnir og skaðaminnkandi nálgun.

Í stefnunni verður notast við hugtakið „heimilislaus með miklar og flóknar þjónustuþarfir“ og kemur það í stað orðsins utangarðsfólk, sem hefur hin síðari ár sætt gagnrýni og þykir gildishlaðið.

Heimsóknum til Frú Ragnheiðar, skaðaminnkandi úrræðis Rauða krossins fyrir fólk sem notar vímuefni í æð og þá sem eru húsnæðislausir, fjölgaði um 38% á milli áranna 2017 og 2018, þetta kemur fram í umsögn Rauða krossins um frumvarp er lýtur að neyslurýmum, lagalega vernduðu umhverfi þar sem einstaklingar 18 ára og eldri geta neytt fíkniefna í æð undir eftirliti heilbrigðisstarfsmanna. Heimsóknirnar voru 3.854 en einstaklingarnir að baki þeim 455. 

Valgerður Á. Rúnarsdóttir, forstjóri Sjúkrahússins Vogs og framkvæmdastjóri lækninga SÁÁ.
Valgerður Á. Rúnarsdóttir, forstjóri Sjúkrahússins Vogs og framkvæmdastjóri lækninga SÁÁ. mbl.is/Árni Sæberg

Alls hafa 2.488 einstaklingar sem sprauta vímuefnum í æð komið í meðferð á Sjúkrahúsinu Vogi síðustu 27 árin. Allt bendir til þess að þeim fari fjölgandi en í fyrra komu 443 einstaklingar sem hafa sprautað sig í æð á Vog. Það er 33% allra innlagna og hlutfallið er hærra hjá ungu fólki. Þetta kom fram í máli Valgerðar Rúnarsdóttur, forstjóra Sjúkrahússins Vogs, á fundi velferðarráðs Reykjavíkur í gær.

Hún segir að á árinu 2018 hafi 304 þeirra sem innrituðust í fyrra verið virkir í neyslu í æð. Mikilvægt sé að þessi hópur fái mestu og um leið bestu mögulegu þjónustu á meðan einstaklingar í honum séu í þessari stöðu. 

Að sögn Valgerðar skiptir miklu þegar kemur að skaðaminnkun að fólk hafi aðgengi að húsnæði til búsetu án skilyrða um bindindi. Eins að nálar, sprautur og annað til sprautunotkunar sé aðgengilegt öllum, alls staðar. Jafnframt að aðgengi að bráðameðferð við fylgikvillum í heilbrigðiskerfinu sé alltaf í boði og að Naloxone sé aðgengilegt alls staðar, svipað og hjartastuðtæki. Neyðar­lyfið Naloxone get­ur komið í veg fyr­ir and­lát ef það er gefið nægj­an­lega fljótt eft­ir ofskömmt­un ópíóíðalyfja. 

Undir þetta tekur Svala Jóhannesdóttir, verkefnastýra Frú Ragnheiðar, og bendir á að skaðaminnkun felist fyrst og fremst í að halda fólki á lífi og að koma í veg fyrir óafturkræfan skaða. Að auka lífsgæði og bæta heilsu fólks sem notar ólögleg sem og lögleg vímuefni.

Valgerður segir að mikilvægt sé að vinna markvisst að því að fjöldi einstaklinga sem notar vímuefni í æð sé eins lítill og mögulegt er og að fækka nýliðun svo sem með forvörnum.

Eitt af því sem Valgerður kom inn á í erindi sínu voru fordómar og nauðsyn þess að draga úr þeim enda eigi allir rétt á virðingu og mannúð. Sagði hún að fordóma væri enn að finna, svo sem þá bábilju að gott aðgengi að sprautum án endurgjalds auki líkur á neyslu. Þeir [sprautufíklar] þurfi á þjónustu að halda og oftast meiri.

80% þeirra sem koma til Frú Ragnheiðar nota vímuefni í …
80% þeirra sem koma til Frú Ragnheiðar nota vímuefni í æð. mbl.is/Hari

Til að mynda eru endurkomur þeirra sem nota vímuefni í æð mun algengari en annarra sem koma í meðferð á Vogi. Að meðaltali er hver þeirra með sex innlagnir. Af þeim sem hafa komið í meðferð frá árinu 1991 hafa 368 látist. Þar af 162 fyrir fertugt og 175 létust á aldrinum 40-59 ára.

Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður velferðarráðs Reykjavíkur, segir að mikilvægt sé að öll samskipti og vinna með fólk, hvort sem það er heimilislaust eður ei, sé byggð á faglegri nálgun og taki mið af gagnreyndum aðferðum. 

Hjá Reykjavíkurborg eigi að leggja áherslu á gagnkvæma virðingu og skilning í samskiptum við heimilislausa og að ávallt sé haft samráð við einstaklingana þegar ákvarðanir eru teknar í þeirra málum. 

Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður velferðarráðs Reykjavíkur, segir að mikilvægt sé …
Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður velferðarráðs Reykjavíkur, segir að mikilvægt sé að öll samskipti og vinna með fólk, hvort sem það er heimilislaust eður ei, byggist á faglegri nálgun og taki mið af gagnreyndum aðferðum. mbl.is/Árni Sæberg

Á vegum Reykjavíkurborgar er starfandi vettvangs- og ráðgjafateymi (VOR-teymi) en hjá því starfar vettvangsteymi sérfræðinga sem aðstoðar fólk sem á í erfiðleikum vegna vímuefna og/eða geðsjúkdóma. Tilgangurinn er að aðstoða heimilislaust fólk og miðla upplýsingum til þess um þá þjónustu sem í boði er og jafnframt fá ráðgjafar betri mynd af aðstæðum. 

Hrafnhildur Ólöf Ólafsdóttir, geðhjúkrunarfræðingur og deildarstjóri á þjónustumiðstöð Vesturbæjar, miðborgar og Hlíða, kynnti starfsemi teymisins á fundi velferðarráðs um málefni heimilislausra en að hennar sögn er reynt að fylgjast með öllum sem eru án húsnæðis í borginni. Til að mynda hafi teymið fylgst grannt með þegar var sem kaldast í vetur og komið fólki í húsaskjól sem á hvergi höfði sínu að halla. Eins um jól að allir hafi eitthvað skjól.

Heiða Björg segir að það sé markmið Reykjavíkurborgar að enginn þurfi að dvelja lengur en í þrjá mánuði í neyðarskýli. Að skilgreina það ferli sem fer í gang þegar einstaklingur leitar í fyrsta sinn í neyðarrými og að við úthlutun á sértæku húsnæði fái fólk upplýsingar um réttindi og skyldur þess sem er í hlutverki ráðgjafa. Að skipað verði úthlutunarteymi fyrir sértækt húsnæði fyrir heimilislausa einstaklinga með miklar og flóknar þjónustuþarfir og núverandi verklag endurskoðað. 

Þegar fjallað er um heimilisleysi í stefnunni er stuðst við skilgreiningu Evrópusambandsins (ETHOS) þar sem er átt við einstaklinga sem glíma við margþættan vanda, t.d. vímuefna- eða geðrænan vanda, þroskafrávik eða hafa lent í miklum áföllum í lífinu, búa við óstöðugleika í búsetu og þarfnast margháttaðs stuðnings.

Stuðst er við hugmyndafræðina „húsnæði fyrst“ (housing first) en í henni felst mikilvægi þess að hver einstaklingur eigi heimili sem auðveldar viðkomandi að nýta sér þá þjónustu sem er fyrir hendi í samfélaginu. Lögð er áhersla á það í stefnunni að enginn ætti að sofa úti, dvelja í neyðarhúsnæði eða útskrifast af stofnun eða verða borinn út án þess að annað úrræði standi til boða.

Í Konukoti geta átta til 12 konur gist.
Í Konukoti geta átta til 12 konur gist. mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson

Við undirbúning stefnumótunar var litið til þess sem verið er að gera í nágrannalöndunum og skoðað hvaða áherslum hefur verið fylgt sem borið hafa mælanlegan árangur. Þar eru áberandi stefnur sem byggja á skaðaminnkandi nálgun og hugmyndafræði um „húsnæði fyrst“ auk samstarfi ríkis og sveitarfélaga. 

Ákveðið var að horfa til þessara þátta við mótun stefnunnar hér og mikilvægis samstarfs sveitarfélaga, ríkis og frjálsra félagasamtaka. Starfsfólk velferðarsviðs sem vinnur með heimilislausum, sem og allt starfsfólk Reykjavíkurborgar, skal hafa það að leiðarljósi að sýna virðingu á öllum stigum þjónustunnar. Áhersla er lögð á að efla og auka sjálfsvirðingu notandans, valdefla einstaklinginn og ekki síst að draga úr fordómum í samfélaginu. Öll þjónusta við heimilislausa skal stuðla að framangreindum þáttum auk samstarfs þvert á stofnanir og samtök.

Byggja á 25 smáhýsi sem verða á fimm lóðum í …
Byggja á 25 smáhýsi sem verða á fimm lóðum í Reykjavík. mbl.is/Golli

Velferðarsvið er þegar að vinna að því að að opna nýtt neyðarskýli fyrir unga vímuefnaneytendur. Þá á að byggja 25 smáhýsi, sem verða á fimm lóðum í Reykjavík. Keyptar verða eða leigðar 20 íbúðir fyrir einstaklinga sem eru á bið eftir félagslegu leiguhúsnæði.

Komið verður upp búsetuúrræði fyrir sex konur með geð- og fíknivanda og að sögn Heiðu Bjargar verður væntanlega hægt að taka á móti fyrstu íbúunum þar í sumar. Í dag eru fjórar konur á biðlista eftir slíku húsnæði og munu þær flytja þangað en auk þess verður rými fyrir tvær konur til viðbótar.

Mikilvægt er að fólki sem er að ljúka afplánun hafi …
Mikilvægt er að fólki sem er að ljúka afplánun hafi aðgang að heimili. mbl.is/Hari

Jafnframt á að auka daglega þjónustu við heimilislausa og bæta húsnæði sem fyrir er. Umfram allt á að auka samráð og samstarf á milli kerfa og stofnana sem tryggja samfellu í þjónustu og kemur í veg fyrir heimilisleysi t.d. þegar fólk útskrifast af áfangaheimilum og úr fangelsum. Þetta er atriði sem allar þær sem fluttu erindi á velferðarkaffinu töluðu um, að tryggja fólki sem er að koma úr meðferð eða fangelsum öruggt húsnæði. 

Kristín I. Pálsdóttir, talskona Rótarinnar, sagði til að mynda að á áfangaheimilinu Vernd væri ein kona í afplánun, aðrir væru karlar. Slík samsetning er alls ekki góð. Valgerður tók sem dæmi Vin, sem er búsetuúrræði fyrir karla sem eru heimilislausir, með alvarlegan fíknisjúkdóm sem flestir sprauta sig í æð með vímuefnum. Slíkt úrræði vanti sárlega fyrir konur. 

Í stýrihópi um mótun stefnunnar voru auk Heiðu Bjargar, borgarfulltrúa Samfylkingarinnar sem var formaður hópsins, þau Alexandra Briem frá Pírötum, Elín Oddný Sigurðardóttir frá Vinstri grænum, Egill Þór Jónsson frá Sjálfstæðisflokknum og Kolbrún Baldursdóttir frá Flokki fólksins.

mbl.is