Sofandi barn skilið eftir í bíl

„Ekkert virtist ama að barninu og voru ekki frekari afskipti,“ …
„Ekkert virtist ama að barninu og voru ekki frekari afskipti,“ segir um þetta mál í dagbók lögreglu, en málið verður þó tilkynnt til Barnaverndar. mbl.is/Eggert

Lögregla brást síðdegis í dag við tilkynningu þess efnis að sofandi ungabarn hefði verið skilið eftir eitt í bifreið í miðborg Reykjavíkur. Er lögregla kom á vettvang var bifreiðin að yfirgefa svæðið, en lögregla tók föður barnsins, sem ók bílnum tali.

Hann gaf þær skýringar að hann hefði verið frá í stutta stund á meðan hann fór í hús í grenndinni. „Ekkert virtist ama að barninu og voru ekki frekari afskipti,“ segir um þetta mál í dagbók lögreglu, en málið verður þó tilkynnt til Barnaverndar.

Fimm ungmenni með fíkniefni í bílakjallara

Ýmislegt annað leynist í dagbók lögreglu. Á fimmta tímanum í dag höfðu lögreglumenn afskipti af fimm ungmennum í bílakjallara verslunar í Kópavogi vegna neyslu og vörslu fíkniefna. Málið var afgreitt með aðkomu forráðamanna barnanna og tilkynningu til Barnaverndar, samkvæmt því sem kemur fram í dagbók lögreglu.

Klukkan 18:25 í dag var tilkynnt um innbrot og þjófnað í Grafarvogi. Þar hafði verið spenntur upp gluggi á heimili, farið inn og verðmætum verið stolið.

Laust eftir hádegi var tilkynnt um þjófnað og eignaspjöll í iðnaðarhverfi í Kópavogi. Þar var búið að bora göt á eldsneytisgeyma þriggja bifreiða og stela bensíni.

Þá kemur fram í dagbók lögreglu að fjölmargir hafi verið stöðvaðir í umferðinni, undir áhrifum ólöglegra fíkniefna, áfengis eða hvoru tveggja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert