Vilja undanþágu frá þriðja orkupakkanum

Frá Sauðárkróki.
Frá Sauðárkróki. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar telur rétt að Alþingi og ríkisstjórn leiti eftir undanþágu frá innleiðingu þriðja orkupakka Evrópusambandsins hér á landi í gegnum EES-samninginn. Ályktun þess efnis var einróma á fundi hennar í vikunni.

Sigríður Regína Valdimarsdóttir, forseti sveitarstjórnar og sveitarstjórnarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, lagði fram ályktunina, en sjálfstæðismenn mynda þar meirihluta ásamt Framsóknarflokknum. Tilefnið var beiðni utanríkismálanefndar Alþingis um umsögn frá sveitarfélaginu um þingsályktun Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra sem gerir ráð fyrir því að þriðji orkupakki Evrópusambandsins verði samþykktur.

„Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar áréttar að orkuauðlindin er ein af mikilvægustu forsendum velmegunar í landinu. Mikilvægi þess að allar ákvarðanir í orkumálum verði í höndum Íslendinga er því ótvírætt,“ segir ennfremur í ályktuninni. Minnt er á að skorður séu settar í stjórnarskránni varðandi framsal valds til erlendra stofnana.

„Aðstæður Íslands í orkumálum eru gjörólíkar þeim sem liggja til grundvallar orkulöggjöf ESB og því er óskynsamlegt að innleiða það regluverk hér. Ísland hefur í dag enga tengingu við orkumarkað ESB og telur sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar slíka tengingu ekki þjóna hagsmunum landsmanna. Sveitarstjórn telur því rétt að Alþingi og ríkisstjórn skuli leita eftir undanþágu frá innleiðingu þriðja orkupakkans.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert