„Aldrei verið flóknara að vera fullorðin“

Ásta Fjeld­sted, fram­kvæmda­stjóri Viðskiptaráðs, og Andri Bjarna­son sál­fræðing­ur.
Ásta Fjeld­sted, fram­kvæmda­stjóri Viðskiptaráðs, og Andri Bjarna­son sál­fræðing­ur.

„Það er tómt mál að ætla að tala um það hvernig við fáum ungt fólk til að sjá tilgang í því að taka ábyrgð sem þegnar í lýðræðislegu ríki og sýna pólitískan áhuga ef þau skilja ekki sambandið á milli réttindanna sem þau njóta og ábyrgðarinnar sem við þurfum að bera,“ sagði Andri Bjarna­son sál­fræðingur í Þjóðmálaþættinum Þingvöllum á K100 í morgun. 

Ásamt Andra voru gestir þáttarins Ásta Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, og María Rut Kristinsdóttir, aðstoðarkona formanns Viðreisnar og fyrrverandi formaður Stúdentaráðs. Umræðuefni þáttarins var rödd ungs fólks og áhrif þess á samfélags- og lýðræðismál og ákvarðanatökur.

Vantar tengsl á milli réttinda og ábyrgðar

Ásta sagði framtíðina sem ungt fólk stendur frammi fyrir yfirþyrmandi. Andri tók í sama streng. „Það hefur sennilega aldrei verið flóknara að vera fullorðin manneskja því vettvangarnir sem við þurfum að beita okkur á ef við viljum vera þátttakendur eru svo margir. Og það kostar mikla orku.“

Ásta velti því þá upp hvort ekki væri hægt að taka samfélagsmál í auknum mæli inn í kennslu. „Maður veltir fyrir sér hvort við getum tekið samfélagsleg mál meira inn á borð í kennslu og vakið áhuga fólks á því sem er að gerast í samfélaginu. Og vakið þannig ungt fólk til umhugsunar um það að þau eru að fara að taka þátt í þessu samfélagi.“

Andri sagði það erfitt nema með því að endurskoða sambandið á milli ábyrgðar og réttinda. „Ég held að við höfum færst svolítið í þá átt að leggja áherslu á réttindi og ábyrgðarhlutinn fylgir ekki með.“

Einlægir einstaklingar komnir inn á sjónarsviðið

María og Ásta tóku undir það. María bætti því við að réttindabarátta ungs fólks geti þó haft áhrif á samfélagið í heild sinni. „Ég hef tekið þátt í alls konar svona réttindabaráttum, Druslugöngunni, Stúdentaráði, Samtökunum 78 og fleira og þar fann maður þennan kraft hjá unga fólkinu sem vildi koma og taka þátt til þess að berjast fyrir réttindum og maður fann hvernig endurtekningin á baráttunni fór hægt og rólega að smitast yfir á þá sem eldri eru.

Kynslóðirnar á undan okkur eru kannski þær kynslóðir sem tóku hlutina kannski svolítið á brjóstið, keyrðu sig í gegnum vandamálin. Við erum að fá miklu einlægari einstaklinga inn á sjónarsviðið núna og samfélagið okkar þarf að vera tilbúið fyrir þessa einlægni. Það er allt í lagi að vera bara svona og hinsegin og vita ekki hvert þú stefnir þannig séð í einhvern tíma. Þarna held ég líka að sé ákveðin gjá á milli kynslóða, þeir sem eldri eru skilja ekkert í því hvers vegna við erum eins og við erum og öfugt. Þarna skiptir næmni og skilningur öllu máli.“

María Rut Kristinsdóttir, aðstoðar­kona for­manns Viðreisn­ar og fyrr­ver­andi formaður Stúd­entaráðs.
María Rut Kristinsdóttir, aðstoðar­kona for­manns Viðreisn­ar og fyrr­ver­andi formaður Stúd­entaráðs. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ásta benti á að til þess að fá ungt fólk til að hafa meiri áhuga á samfélagsumræðunni og taka aukinn þátt væri ráðið ekki að stofna fleiri ungmennaráð og auka á skrifræðið heldur frekar að tengja fólk saman.

„Þeir sem eldri eru hafa ekkert endilega rétt fyrir sér en það er gott að geta leitað til þeirra. Það fyrirkomulag sem ég hef verið svo heppin að hafa upplifað í gegnum tvö erlend stórfyrirtæki, annars vegar í Danmörku og hins vegar í Japan, er að þar er fyrirtækjamenningin einfaldlega þannig að þegar ungt fólk kemur inn þá er það í beinum samskiptum við þá sem efstir eru í fyrirtækinu. 

Þú hittir slíkan aðila að minnsta kosti vikulega. Þetta er ekki eitthvað yfirborðskennt samband heldur erum við raunverulega að vinna verkefnin saman þar sem eldri aðilinn leitar til þín sem ungs aðila sem veit kannski ekki mikið um málefnið og þið kastið boltanum á milli til að ná þroska í lausn fyrir báða aðila.“

Björt framtíð ungs fólks

Andri, sem vinnur mikið með ungu fólki, segist þó bjartsýnn um framtíð ungu kynslóðarinnar. „Þegar maður vinnur með ungu fólki þá kemst maður fljótt að því að þessi kynslóð sem er núna að verða fullorðin, þetta er efnilegt fólk. Þau hugsa á mjög skapandi hátt og eru ekki jafn bundin af mörgu sem við erum bundin af. Þegar ég horfi á þessa kynslóð þá hugsa ég: já, það er spennandi að sjá hvað hún gerir og ég hef trú á henni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert