Er einnota óþarfi?

Með átakinu eru landsmenn hvattir til þess að taka höndum …
Með átakinu eru landsmenn hvattir til þess að taka höndum saman um að hætta notkun á einnota vörum. Umhverfisstofnun

Við eigum að hætta að nota einnota vörur sem óþarfi er að nota og það er ákaflega mikilvægt að fólk og fyrirtæki endurskoði það hvernig það nýtir sér þær. Þetta segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, en Umhverfisstofnun setti nýlega af stað átak til að vekja athygli á mikilvægi þess að draga úr notkun á einnota plasti.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, en með átakinu eru landsmenn hvattir til þess að taka höndum saman um að hætta notkun á einnota vörum þar sem það er mögulegt.

„Þetta eru hlutir sem fylgja okkur ef til vill nokkur andartök en geta enst í tugi og hundruð ára sem úrgangur, með afdrifaríkum afleiðingum fyrir lífríki og náttúru,“ segir Guðmundur Ingi.

Samráðsvettvangur um plastmálefni skilaði tillögum sínum um aðgerðir í plastmálefnum til umhverfis- og auðlindaráðherra þann 1. nóvember síðastliðinn. Var þar m.a. kveðið á um að hrundið yrði af stað vitundarvakningu um ofnotkun á plasti og er átakið liður í því.

Meðal annarra aðgerða sem ráðist hefur verið í er frumvarp sem nú liggur fyrir Alþingi um bann við afhendingu burðarplastpoka í verslunum. Þá verður fljótlega auglýst eftir tilnefningum til nýrrar viðurkenningar fyrir framúrskarandi plastlausar lausnir sem veitt verður í tengslum við Plastlausan september í haust.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert