Hefndarenglar fá Svartfuglinn

Eiríkur P. Jörundsson vinningshafi Svartfuglsins og Eliza Reid forsetafrú.
Eiríkur P. Jörundsson vinningshafi Svartfuglsins og Eliza Reid forsetafrú. Haraldur Jónasson/Hari

„Ég var lengi búinn að ganga með þann draum í maganum að skrifa glæpasögu. Ég ákvað þegar samkeppnin um Svartfuglinn var auglýst í fyrsta sinn árið 2017 að láta til skarar skríða og skrifaði mína fyrstu glæpasögu, Hefndarenglar sem kom út í gær,“ segir Eiríkur P. Jörundsson sem tók við Svartfuglinum í athöfn í Gröndalshúsi fyrir stundu.

Svartfuglinn er veittur í annað sinn en Yrsa Sigurðardóttir og Ragnar Jónasson stofnuðu til verðlaunanna í samvinnu við bókaútgáfuna, Veröld. Svartfuglinn er ætlaður höfundum sem hafa ekki áður sent frá sér glæpasögu. Eva Björg Ægisdóttir hlaut Svartfuglinn 2018 fyrir Marrið í stiganum. Báðir verðlaunahafar Svartfuglsins eru aldir upp á landsbyggðinni og láta sögurnar gerast í fæðingarbæ sínum, Eva Björg á Akranesi og Eiríkur í Súðavík.

„Hefndarenglar fjalla um Sölva blaðamann sem sendur er á æskuslóðirnar í Súðavík til að fjalla um morð í þorpinu. Inn í söguna fléttast undirheimar Reykjavíkur, snjóflóðið 1995, önnur mannskæð slys sem Súðvíkingar hafa upplifað og baráttan við náttúröflin,“ segir Eiríkur sem skrifaði sína fyrstu bók Þar sem land og haf haldast í hendur, árið 2016 en bókin fjallaði um Súðarvíkurhrepp að fornu og nýju.

Nánar verður rætt við Eirík í Morgunblaðinu á morgun, þriðjudag. 

mbl.is/​Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert