Bróðirinn með marga dóma á bakinu

Karlmaðurinn sem grunaður er um að hafa skotið hálfbróður sinn til bana í bænum Mehamn í Finnmörku í Noregi hefur frá árinu 1999 hlotið fjölda dóma og verið gert að sæta sektum, meðal annars fyrir nauðgun, frelsissviptingu og alvarlega líkamsárás. Síðasta dóminn hlaut hann árið 2014, 15 mánuði fyrir fíkniefnaakstur, en þá braut hann meðal annars skilorð vegna frelsissviptingar- og líkamsárásadómsins.

Maðurinn heitir Gunnar Jóhann Gunnarsson og er sem fyrr segir hálfbróðir Gísla Þórs Þórarinssonar sem skotinn var til bana. Gísli lætur eftir sig unnustu og fósturbörn.

Gunnar Jóhann er fæddur árið 1983, en hann hlaut fyrstu sektargreiðsluna árið 1999 fyrir umferðarlagabrot og að hafa tekið bifreið í heimildarleysi. Árið 2001 fékk hann tveggja ára dóm fyrir þjófnað. Árið 2002 fékk fékk hann dóma fyrir umferðarlagabrot, þjófnað og vopnalagabrot. Þá var hann einnig dæmdur í 22 mánaða fangelsi fyrir að hafa ásamt öðrum karlmanni nauðgað 16 ára stúlku. Ári seinna staðfesti Hæstiréttur nauðgunardóminn.

Árið 2004 var Gunnari Jóhanni veitt skilorðsbundin reynslulausn í tvö ár á óafplánuðum eftirstöðvum refsingarinnar. Árið 2007 hlaut hann svo aftur dóm, en nú fyrir hótanir og kúgun. Dæmdi héraðsdómur hann í 15 mánuði en Hæstiréttur þyngdi refsinguna í 18 mánuði. Árið 2008 fékk hann svo fjögurra mánaða hegningarauka við fyrri dóm.

Árið 2010 var Gunnar Jóhann svo dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir frelsissviptingu og alvarlega líkamsárás, en hann og annar maður fóru ásamt fórnarlambi inn á heimili fórnarlambsins þar sem þeir meðal annars settu rafmagnssnúru um háls mannsins, hótuðu að drepa hann og límdu munn og hendur saman. Þá hótuðu þeir að beita sambýliskonu mannsins ofbeldi ef hann myndi ekki útvega fjármuni.

Gunnar Jóhann fékk svo 15 mánaða dóm fyrir fíkniefnaakstur árið 2014, en þá hafði hann brotið reynslulausn vegna fyrri dóms.

Gunnar Jóhann skrifaði færslu á Facebook-síðu sína eftir að Gísla var ráðinn bani þar hann virðist tala um verknaðinn og játa að hafa hleypt af byssunni. Lögreglan í Noregi hefur gefið upp að Gunnar Jóhann hafi verið úrskurðaður í nálgunarbann vegna hótana gegn Gísla.

Í kvöld verður bæði Gunnar Jóhann og annar maður sem grunaður er um aðild að málinu leiddir fyrir dómara og krafist gæsluvarðhalds yfir þeim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert