Mikilvægur hluti af okkar samfélagi

Kirkjan í Mehamn þar sem Maria Dale sóknarprestur hélt minningarstund …
Kirkjan í Mehamn þar sem Maria Dale sóknarprestur hélt minningarstund um hinn látna. Samfélag Íslendinga í Mehamn er með böggum hildar eftir voðaatburðinn í nótt. Ljósmynd/Wikipedia.org

Fámennt og afskekkt samfélag í Norður-Noregi er í sárum vegna harmleiks sem varð í þorpinu Mehamn í Finnmörku aðfaranótt laugardags. Fertugur íslenskur sjómaður var skotinn til bana og hálfbróðir hans var handtekinn í kjölfarið grunaður um að hafa banað honum.

Þriðji maðurinn er í haldi vegna gruns um að eiga aðild að málinu. Hinir grunuðu eru einnig íslenskir sjómenn.

„Íslendingar hafa verið mjög mikilvægur hluti af samfélagi okkar síðustu ár og okkur hefur þótt virkilega vænt um að hafa þá hér. Þeir hafa verið stór hluti af atvinnulífi okkar,“ segir Øyvind Korsberg, talsmaður bæjarstjórnarinnar í Gamvik, við Morgunblaðið. „Okkur þykir það skelfilega sorglegt að þetta skuli hafa gerst. Hugur okkar er allur hjá hinum látna og fjölskyldu hans,“ segir Korsberg.

Lögreglan vinnur að rannsókn málsins. Hún mun fara fram á gæsluvarðhald yfir hinum grunuðu þegar þeir verða leiddir fyrir dómara í dag. Fram kemur í tilkynningu lögreglunnar að sá sem grunaður er um verknaðinn hafi haft í hótunum við fórnarlambið fyrir árásina og verið úrskurðaður í nálgunarbann gagnvart honum. Sjálfur birti hann færslu á Facebook skömmu áður en hann var handtekinn, þar sem hann virðist viðurkenna verknaðinn og biður fjölskyldu sína afsökunar.

Íslenskt sjávarútvegsfyrirtæki

Mehamn er kyrrlátt tæplega 800 manna sjávarþorp nyrst í Noregi og í sveitarfélaginu Gamvik búa alls rúmlega 1.100 manns. Þar af eru um þrjátíu Íslendingar. Margir þeirra fluttu til Gamvik til að vinna hjá sjávarútvegsfyrirtæki sem tveir Íslendingar stofnuðu þar fyrir nokkrum árum og hafa rifið upp. Íslendingar hafa einnig flutt til Mehamn, meðal annars sjómenn.

„Hver einasti maður í Mehamn er í sjokki,“ sagði Sigurður Hjaltested, sjómaður í Mehamn, í fyrradag. „Við vorum góðir félagar. Þessi drengur var alveg yndislegur og ég get sagt þér að stórt skarð er höggvið í samfélag Íslendinga jafnt og Norðmanna.“

Minningarathöfn var haldin í Mehamn í fyrradag auk þess sem kirkjan í þorpinu Gamvik var höfð opin. Margir komu til kirkju og athöfnin í Mehamn var tilfinningarík.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert