Þurfa líka að yfirheyra fólk hér á landi

Mehamn í Noregi.
Mehamn í Noregi. Kort/Google

Norska lögreglan gerir ráð fyrir að yfirheyra þurfi nokkra einstaklinga hér á landi vegna andláts íslensks sjó­manns sem skot­inn var til bana í þorp­inu Mehamn í Finn­mörku aðfaranótt laug­ar­dags. Þetta segir Silja Arvola, upplýsingafulltrúi lögreglunnar í Finnmörku, í samtali við mbl.is.

Morgunblaðið greindi frá því í morgun að maðurinn hét Gísli Þór Þór­ar­ins­son og hefur norska lögreglan nú einnig birt nafn Gísla Þórs, eftir að hafa fengið nauðsynlegar upplýsingar staðfestar frá lögreglu hér á landi.

„Við erum núna að ganga á milli húsa í hverfinu og bönkum þar á dyr og spyrjum spurninga,“ segir Arvola, en fram kemur í fréttatilkynningu lögreglu að verið sé að kanna hvort að nágrannar hafi orðið einhvers varir sem gagnast geti lögreglu við rannsókn sína.

„Síðan viljum við líka fá að yfirheyra nokkra einstaklinga á Íslandi,“ bætir Arvola við. Hún segir ekki liggja enn fyrir hvort norskir lögreglumenn verði sendir til Íslands vegna þessa, eða hvort yfirheyrslurnar verði framkvæmdar símleiðis með aðstoð íslensku lögreglunnar. Þegar er búið að ræða við fjölda einstaklinga í Noregi vegna málsins.                                   

Menn­irn­ir sem í haldi eru í málinu verða leidd­ir fyr­ir dóm­ara í Vadsø í kvöld, klukk­an 19 og 19.30 að norsk­um tíma, þar sem farið verður fram á gæslu­v­arðhald yfir þeim. Ann­ar maður­inn er hálf­bróðir hins látna og fer lög­regla fram á fjög­urra vikna gæslu­v­arðhald og ein­angr­un­ar­vist yfir hon­um og viku­langt gæslu­v­arðhald yfir hinum árás­ar­mann­in­um. Sá hef­ur neitað aðild að mál­inu að því er norsk­ir fjöl­miðlar hafa eft­ir lög­manni hans.

Ekki er enn búið að yfirheyra þann þeirra sem er grunaður um verknaðinn, en hann hefur neitað að ræða við lögreglu. Arvola segir að rætt hafi verið einu sinni við hinn manninn, en að sögn norska fréttavefjarins iFinnmark er ástæða þess að ekki ekki er búið að yfirheyra mennina aftur sú að beðið er komu túlks frá Íslandi. Koma hans hefur hins vegar tafist vegna verkfalls SAS-flugfélagsins.

Gert er ráð fyrir að yfirheyrslur hefjist yfir mönnunum báðum á miðvikudag. Vettvangsrannsókn er þá enn í fullum gangi og taka þrír sérfræðingar tæknideildar Kripos, norsku rannsóknarlögreglunnar, þátt í rannsókninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert