„Gísli var rifinn af okkur“

Þessa mynd af Gísla heitnum birtir Elena Undeland, kærasta hans, …
Þessa mynd af Gísla heitnum birtir Elena Undeland, kærasta hans, með texta þar sem hún blæs til söfnunar svo flytja megi jarðneskar leifar Gísla heim til Íslands þar sem ætlunin er að leggja hann til hinstu hvílu á Ísafirði. Ljósmynd/Aðsend

„Gísli Þór, hjartað mitt, svo blíður og góður, heimsins besti kærasti og stjúpfaðir. Mitt allt.“ Þannig hefst texti Elenu Undeland, eftirlifandi kærustu Gísla Þórs Þórarinssonar heitins, við söfnunarátak sem hún hefur hleypt af stokkunum svo flytja megi jarðneskar leifar Gísla til Íslands þar sem til stendur að leggja hann til hinstu hvílu á Ísafirði.

Gísli var skotinn til bana aðfaranótt laugardags við harmleik sem lagt hefur hið kyrrláta fiskiþorp Mehamn í Finnmörku á hliðina. Tveir menn voru í gær úrskurðaðir í gæsluvarðhald í Vadsø, grunaðir um verknaðinn, eins og mbl.is greindi frá. Elena Undeland veitti mbl.is góðfúslegt leyfi til að greina frá söfnuninni og birta texta hennar.

Verður jarðsettur á Ísafirði

„Gísli Þór var rifinn af okkur í einu vetfangi á laugardaginn,“ skrifar Elena neðan við upphafskveðju sína til kærasta síns. „Það verður kostnaðarsamt að flytja Gísla til hinstu hvílu, hann verður jarðsettur á Ísafirði á Íslandi. Við hefjum því söfnun á borð við þá sem systkini hans og vinir á Íslandi hafa hafið.“

Elena gefur að lokum upp norskt bankareikningsnúmer sem er 4750.72.45982 en norskar bankamillifærslur krefjast ekki kennitölu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert