Innkölluðu bankaábyrgðir vegna Herjólfs

Nýr Herjólfur á reynslusiglingu í Póllandi.
Nýr Herjólfur á reynslusiglingu í Póllandi.

Vegagerðin hefur farið fram á að fá greiðslu úr ábyrgðatryggingu pólsku skipasmíðastöðvarinnar Crist S.A., en stöðin hefur séð um byggingu nýs Herjólfs fyrir Vegagerðina. Deilur hafa staðið um greiðslur vegna smíðinnar og hefur skipasmíðastöðin viljað hærri greiðslur vegna aukinna verkefna sem þeir telja hafa komið upp í ferlinu.

Upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, G. Pétur Matthíasson, segir ekkert hæft í því að Vegagerðin hafi rift samningnum við skipasmíðastöðina Crist S.A. líkt og haft hefur verið eftir umboðsmanni skipasmíðastöðvarinnar.

„Vegagerðin hefur hins vegar innkallað bankaábyrgðir sem annars myndu renna út í dag og höfðu ekki verið framlengdar. Í dag kemur í ljós hvort skipasmíðastöðin framlengir ábyrgðirnar en viðræður við þá eru í gangi og ekki hægt að tjá sig um gang mála í þeim. Vegagerðin átti engan annan kost en innköllun ábyrgða til að tryggja stöðu sína,“ segir G. Pétur.

Björgvin Ólafsson, umboðsmaður skipasmíðastöðvarinnar, staðfestir í samtali við mbl.is að Vegagerðin hafi farið fram á að fá greiðslu úr svokallaðri „advanced payment guarentee“. Er slík ábyrgð vanaleg þegar skip eru smíðuð, en kaupandi greiðir fyrir fram inn á verkið og er ábyrgð sett upp sem kaupandi getur svo sótt í ef eitthvað kemur upp. Eyjar.net sögðu fyrst frá málinu.

„Þetta er ígildi riftunar,“ segir Björgvin í samtali við mbl.is, en hann segir kröfuna um endurgreiðslu hafa komið skipasmíðastöðinni verulega á óvart. Þannig hafi fulltrúar stöðvarinnar fundað með Vegagerðinni á föstudaginn og það hafi verið skilningur manna að framlengja ætti gildistíma ábyrgðarinnar.

Björgvin segir upphæð ábyrgðarinnar nema 85% af kaupverðinu. Hann hafi ekki heyrt nánar í Vegagerðinni vegna málsins, en eins og mál standi sé nýr Herjólfur ekki á leiðinni að sigla milli Eyja og lands. „Þetta er allt í upplausn.“ Skipið fer nú í söluferli að hans sögn.

Frétt Eyjar.net

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert