Færri tyggjó en sama verð

„Það er súrt í broti þegar verið er að minnka …
„Það er súrt í broti þegar verið er að minnka magn í vöru án þess að það komi til samsvarandi lækkunar á útsöluverði til neytenda," segir formaður Neytendasamtakanna.

„Mér finnst þetta óþolandi þegar það er eiginlega verið að fela þetta. Það er verið að koma aftan að neytendum,“ segir Ómar R. Valdimarsson glöggur neytandi. Hann bendir á í færslu á Facebook að í Extra pakkanum eru 21 tyggjó í staðinn fyrir 25 stykki sem voru áður. Einnig hefur Vífilfell minnkað umbúðirnar á Svala úr 250ml í 200ml.

 


„Ég nota mjög mikið af tyggjói og mér finnst bæði verðið hafa hækkað og innihaldið minnkað. Ég hef ekki orðið var við að þetta hafi verið kynnt sérstaklega fyrir neytendum,“ segir Ómar. 

„Það er súrt í broti þegar verið er að minnka magn í vöru án þess að það komi til samsvarandi lækkunar á útsöluverði til neytenda. Það er í raun og veru annað form á hækkun á vöruverði. Ég hvet neytendur til að hafa augun hjá sér og senda ábendingar svo við getum beitt okkar þrýstingi og vakið athygli á þessu,“ segir Breki Karlsson formaður Neytendasamtakanna.

Breki leitaði svara hjá verslunum varðandi þessar tvær vörutegundir. Hann fékk þau svör að nýlega hafi tyggjóum í pokum frá Extra fækkað niður í 21 stykki en verðið hafi haldist óbreytt frá innflytjanda, þrátt fyrir mótmæli smásölunnar, að sögn Breka.

16% fækkun er á tyggjóum og hækkunin er 19%. „Það er ansi mikil hækkun og úr takti við allt og í rauninni illskiljanleg,“ segir Breki.  

Ekki er sama magn í Extra tyggjópokunum.
Ekki er sama magn í Extra tyggjópokunum.

Betra tyggjó með mikrókornum

„Eiginleiki vörunnar hefur breyst. Hún er orðin enn betri fyrir tennurnar og almenna tannheilsu,“ segir Páll Hilmarsson, framkvæmdastjóri markaðssviðs heildverslunarinnar Innnes, spurður út í fækkun tyggjóa í Extra pokunum. 

Framleiðandi Extra hefur breytt Hvítu Extra línunni hjá sér og hefur hún núna fengið eiginleika Professional-línunnar og inniheldur núna meðal annars mikrókorn.

Allt tyggjó frá Extra sem inniheldur mikrókorn hefur 21stk í hverjum poka en ávaxtalínan hefur enn 25 stk í poka að sögn Páls.

Páll staðfestir að verðið á vörunni hafi ekki breyst frá framleiðanda þrátt fyrir að færri tyggjó séu í pokunum enda hefur eiginleiki vörunnar breyst til samræmis við Professional línuna.

Minnkuðu umbúðir en fjölguðu fernum í pakkakaupum

Varðandi Svala frá Vífilfelli þá er verið að breyta stærð fernanna. Í Krónunni voru áður þrjár 250 ml fernur seldar saman í pakka á 148 kr. sem sagt í heildina 750 ml. Í dag eru fernurnar fjórar 200 ml saman á 179 krónur í heildina 800 ml. 

„Það er frjáls álagning á Íslandi og getum ekki gert neitt í því. Við hvetjum alla félagsmenn til þess að vera meðvitaður í sínum kaupum,“ segir Breki og bætir við að svona aðferðir verði ekki liðnar.  

Breki Karlsson formaður Neytendasamtakanna.
Breki Karlsson formaður Neytendasamtakanna.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert