4,6 milljónir í samfélagsmiðla

Landspítalinn eyddi mest af öllum heilbrigðisstofnunum í auglýsingar á samfélagsmiðlum, …
Landspítalinn eyddi mest af öllum heilbrigðisstofnunum í auglýsingar á samfélagsmiðlum, 4,6 milljónir króna á árunum 2016-2018. mbl.is/Ómar Óskarsson

Landspítalinn keypti auglýsingar á samfélagsmiðlum fyrir 3,5 milljónir króna í fyrra sem er ríflega þrefalt meira en árið 2017 þegar spítalinn keypti slíkar auglýsingar fyrir um eina milljón. Árið 2016 var kostnaðurinn aðeins 50.719 krónur, en það var fyrsta árið sem spítalinn keypti slíkar auglýsingar.

Þetta kemur fram í svari Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Björns Leví Gunnarssonar, þingmanns Pírata, um útgjöld heilbrigðisstofnanna vegna auglýsinga eða kostaðrar dreifingar á samfélagsmiðlum, svo sem á Facebook, Instagram, YouTube og Twitter frá árinu 2015.

Í heild greiddi Landspítalinn 4,6 milljónir króna fyrir slíkar auglýsingar á tímabilinu, mest allra heilbrigðisstofnanna. Næst á eftir kemur Embætti landlæknis sem hefur greitt 617 þúsund krónum á árunum 2017 og 2018 fyrir auglýsingar á samfélagsmiðlum.

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins keypti auglýsingar fyrir 240 þúsund krónur, Lyfjastofnun fyrir 107 þúsund, Heilbrigðisstofnun Norðurlands fyrir 71 þúsund og Sjúkratryggingar Íslands fyrir 40 þúsund krónur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert