Meintur samverkamaður laus úr haldi

Héraðsdóm­ur Aust­ur-Finn­merk­ur í Vadsø hafði fallist á gæsluvarðhaldsbeiðni lögreglu, en …
Héraðsdóm­ur Aust­ur-Finn­merk­ur í Vadsø hafði fallist á gæsluvarðhaldsbeiðni lögreglu, en áfrýjunardómstóll í Hálogalandi synjaði henni. Ljósmynd/Andrea Dahl/iFinnmark

Meintur samverkamaður Gunn­ars Jó­hanns Gunn­ars­son, sem grunaður er um að  hafa skotið Gísla Þór Þór­ar­ins­son hálf­bróður sinn í Mehamn í Finn­mörku aðfaranótt laug­ar­dags, er nú laus úr haldi.

Þetta hefur norski fréttavefurinn iFinnmark eftir Önju M. Ind­bjør, lög­manni lög­regl­unnar í Finn­mörku, nú í kvöld.

Lögregla hafði farið fram á vikulangt gæsluvarðhald yfir manninum og hafði Héraðsdóm­ur Aust­ur-Finn­merk­ur í Vadsø fallist á þá beiðni. Maðurinn, sem hefur neitað því að hafa komið ná­lægt mál­inu, áfrýjaði þeim úrskurði.

„Áfrýjunardómstóllinn í Hálogalandi samþykkti ekki beiðni lögreglu um gæsluvarðhald yfir hinum 32 ára samverkamanni og var hann því látinn laus síðdegis í dag,“ segir Indbjør og kveður lögreglu ekki munu áfrýja þeim úrskurði.

Að sögn lögfræðings mannsins, Jens Bernhard Herstad, neitar hann allri ábyrgð í málinu og segist hafa reynt að koma í veg fyrir drápið. „Hann segist sjálfur ekki hafa átt neinn þátt í því og skilur ekki af hverju hann er ákærður,“ hefur iFinnmark eftir Herstad.

Að sögn fréttavefjarins er maðurinn nú kominn aftur til Mehamn.

Komnir með nokkuð skýra mynd af því sem gerðist

Gunn­ar var úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald og unir þeim úrskurði. Hann var yfirheyrður í sex tíma í gær. Sagði Vi­dar Zahl Arntzen, verj­andi Gunn­ars, í samtali við mbl.is í gær að Gunnar væri gjör­sam­lega niður­brot­inn.

Tor­stein Petter­sen, deild­ar­stjóri rann­sókn­ar­deild­ar Finn­merk­urum­dæm­is norsku lög­regl­unn­ar, sagði í sam­tali við mbl.is í kvöld að lögregla væri nú komin með nokkuð skýra mynd af atburðunum í kringum dauða Gísla. Enn sé þó mörgum spurningum ósvarað.

„Hann gaf okk­ur sam­fellda lýs­ingu. Nú bíðum við eft­ir loka­skýrslu tækni­rann­sókna hvað vett­vang, vopn og hinn látna snert­ir. Hann hef­ur greint okk­ur frá sín­um hluta í því sem gerðist,“ seg­ir Petter­sen og bæt­ir því við að grunaði í mál­inu, Gunn­ar Jó­hann Gunn­ars­son, sem nú sit­ur við ann­an mann í gæslu­v­arðhaldi, játi ekki sekt í mál­inu.

Þetta tákn­ar þó ekki að Gunn­ar seg­ist sak­laus af því að hafa skotið hálf­bróður sinn, það hef­ur hann þegar játað. „Hann viður­kenn­ir ekki að hafa gerst sek­ur um mann­dráp af ásetn­ingi [n. for­sett­lig drap],“ út­skýr­ði Petter­sen.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert