Þriðjungur frá N-Ameríku

Rúmlega þriðjungur ferðamanna sem hingað ferðast kemur frá Norður-Ameríku og er það langstærsta markaðssvæði íslenskrar ferðaþjónustu um þessar mundir. Jafnframt hefur það svæði vaxið mest frá árinu 2010 sem hlutfall af heildarfjölda ferðamanna eða um 20 prósentustig. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Íslandsbanka um íslenska ferðaþjónustu.

Næstflestir ferðamenn koma frá Mið- og Suður-Evrópu eða tveir af hverjum tíu ferðamönnum. Markaðssvæði Mið- og Suður-Evrópu hefur dregist næstmest saman á eftir Norðurlöndunum eða um níu prósentustig.

Ný og ítarlegri sundurliðun á þjóðernaskiptingu ferðamanna sýnir vaxandi mikilvægi Asíu sem markaðssvæðis íslenskrar ferðaþjónustu. Svæðið er orðið fjórða mikilvægasta markaðssvæði greinarinnar og um einn af hverjum tíu ferðamönnum á Íslandi koma þaðan. Líklega er hlutfallið vanmetið þar sem fjölmennar asískar þjóðir eru enn þá ótilgreindar og falla því ferðamenn þeirra þjóða undir flokkinn „Annað“. Þessari þróun hljóta að fylgja breyttar áherslur í markaðssetningu og stefnumótun innan greinarinnar.

Icelandair með 72% markaðshlutdeild

Flugframboð um Keflavíkurflugvöll (KEF) er líklega veigamesti áhrifaþáttur íslenskrar ferðaþjónustu enda ferðast rúmlega 90% allra ferðamanna til landsins í gegnum KEF. Samkvæmt sumaráætlun Isavia, sem sýnir framboð flugsæta um KEF á tímabilinu apríl til október, dregst það saman um 28% á þessu ári frá sama tímabili á síðasta ári í ljósi gjaldþrots WOW air. Munar þar mest um gjaldþrot WOW air.

Icelandair eykur á sama tímabili framboð sitt um 14% og önnur erlend flugfélög um 5%. Fyrir vikið fer hlutdeild Icelandair í heildarframboði um KEF úr 46% á síðastliðnu ári í 72% á þessu ári. Icelandair hefur ekki verið með hærri hlutdeild frá árinu 2013 og má gróflega áætla að tæplega ¾ hlutar gjaldeyristekna ferðaþjónustunnar séu að talsverðu leyti undir starfsemi fyrirtækisins komnir og þar með rúmur fjórðungur af gjaldeyristekjum þjóðarbúsins.

WOW air flutti hlutfallslega fleiri ferðamenn frá N-Ameríku og Mið- og Suður-Evrópu hingað til lands en önnur flugfélög og mun gjaldþrot félagsins því að öðru óbreyttu hafa mestu áhrifin á fjölda ferðamanna hingað til lands frá þessum markaðssvæðum.

Markaðshlutdeild Icelandair hefur ekki verið jafn mikil síðan árið 2013.
Markaðshlutdeild Icelandair hefur ekki verið jafn mikil síðan árið 2013. mbl.is/Eggert Jóhannesson

520 milljarða tekjur

Á síðasta ári námu tekjur ferðaþjónustunnar 520 milljörðum króna og skilaði greinin 39% af heildargjaldeyristekjum það ár samanborið við 18% framlag sjávarútvegs og 17% framlag áliðnaðar.

Í ár eru hins vegar horfur á samdrætti í tekjum ferðaþjónustunnar. Horfur eru á að ferðamönnum fækki talsvert frá fyrra ári og árið í ár lendi á milli áranna 2016 og 2017 hvað tekjur varðar. Lægra gengi krónu og verðhækkun á vörum og þjónustu í krónum talið vegur þó á móti.

„Hver ferðamaður skilar því að mati okkar meiri tekjum í krónum talið þetta árið en í fyrra. Við áætlum að u.þ.b. 36% af heildarútflutningstekjum ársins komi frá ferðaþjónustu. Til samanburðar munu sjávarútvegur og áliðnaður væntanlega samanlagt skila í kring um 37% af heildartekjum þjóðarbúsins af útflutningi í ár,“ segir í nýrri skýrslu Íslandsbanka

WOW-farþegar eyddu minna

Frekari tölfræði um þá ferðamenn sem komu hingað með WOW air bendir til þess að meðalútgjöld þeirra hafi verið 9% lægri en meðalútgjöld ferðamanna hér á landi almennt. Einnig bendir tölfræðin til þess að hlutfallslega færri þeirra hafi verið með tekjur yfir meðallagi og að þeir hafi dvalið hér á landi um 5% skemur en ferðamenn almennt.

Þá kemur einnig í ljós að hlutfallslega færri farþegar WOW air nýttu sér hótelgistingu og hlutfallslega fleiri þeirra nýttu sér aðra ódýrari valkosti sem fela í sér minni þjónustu á borð við Airbnb, hostel o.þ.h. Þessi tölfræði bendir til þess að farþegar WOW air hafi skilið eftir sig minni tekjur.

Á síðastliðnu ári var fjölgun ferðamanna að langstærstum hluta borin uppi af bandarískum ferðamönnum. Þeim fjölgaði um 118 þúsund en samtals komu um 121 þúsund fleiri ferðamenn frá öllum þjóðum á árinu 2018 en á árinu 2017.

Ferðamenn annarra ótilgreindra þjóða léku einnig mikilvægt hlutverk á síðasta ári en ekki er unnt að segja nákvæmlega til um það hvaðan þeir ferðamenn koma. Ný og ítarlegri sundurliðun á þjóðernaskiptingu ferðamanna bendir þó til að þarna sé að mestu um að ræða asískar þjóðir.

Bretar og Þjóðverjar vega svo þyngst til fækkunar. Þrátt fyrir að Bretar dvelji alla jafna skemur hér á landi en ferðamenn annarra þjóða ferðast þeir hingað í meiri mæli utan háannatíma og leika þannig mikilvægt hlutverk við að draga úr árstíðasveiflu greinarinnar og jafna rekstrargrundvöll hennar.

Þjóðverjar og aðrar þjóðir í Mið- og Suður-Evrópu dvelja alla jafna lengur hér á landi en ferðamenn annarra þjóða og eru því mikilvægir fyrir ferðaþjónustu á landsbyggðinni. Í áðurgreindu samhengi getur þessi þróun því haft neikvæðar afleiðingar í för með sér fyrir greinina.

mbl.is