Fundu blóð í bíl sem Gunnar var í

Torstein Pettersen, deildarstjóri rannsóknardeildar Finnmerkurumdæmis norsku lögreglunnar og stjórnandi rannsóknar …
Torstein Pettersen, deildarstjóri rannsóknardeildar Finnmerkurumdæmis norsku lögreglunnar og stjórnandi rannsóknar Mehamn-málsins. Ljósmynd/Ole-Tommy Pedersen/Finnmarken

Tæknideild norsku lögreglunnar hefur rannsakað bíl sem talið er að Gunnar Jóhann Gunnarsson og annar Íslendingur hafi yfirgefið vettvang morðsins á Gísla Þór Þórarinssyni aðfaranótt laugardags. Blóð fannst í bílnum.

Tor­stein Petter­sen, deild­ar­stjóri rann­sókn­ar­deild­ar Finn­merk­urum­dæm­is norsku lög­regl­unn­ar, greinir frá þessu í samtali við VG.

„Við höfum meðal annars rannsakað bíl sem við vitum að var notaður eftir atvikið en í bílnum fannst blóð,“ segir Pettersen. Lögregla hefur rætt við um 40 vitni vegna málsins.

Atburðarásin tekin að skýrast

Pettersen segir að atburðarásin klukkustundirnar áður en Gísli var myrtur sé tekin að skýrast. 

„Við yfirheyrum vitni sem þekktu látna og hina grunuðu eða voru með hinum grunaðu klukkustundirnar áður. Einnig höfum við rætt við vitni sem gætu lýst sambandi hins látna og grunuðu lengra aftur í tímann,“ segir Pettersen.

Fram kemur í frétt VG að Gunnar hafi viðurkennt að hafa hleypt af byssu en viðurkenni hins vegar ekki að hafa framið morð. 

„Hann var yfirheyrður í gær. Fyrri deilur þeirra eru lykilatriði í málinu,“ segir Pettersen en áður hafði verið greint frá því að Gunnar sætti nálgunarbanni gagnvart Gísla vegna hótana.

Handtakan sjálf hafi farið friðsamlega fram en talið er að hinir grunuðu hafi verið undir áhrifum áfengis og fíkniefna við handtöku. Blóðsýni muni sannreyna þann grun.

Frétt VG.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert