Landsréttur þyngir dóm yfir Val í 14 ár

Valur Lýðsson við upphaf aðalmeðferðar í héraðsdómi.
Valur Lýðsson við upphaf aðalmeðferðar í héraðsdómi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Valur Lýðsson var í dag dæmdur í Landsrétti í 14 ára fangelsi fyrir að hafa orðið bróður sínum, Ragnari Lýðssyni, að bana á heimili Vals að Gýgjarhóli II í Bláskógabyggð á síðasta ári. Áður hafði Valur hlotið sjö ára dóm í héraðsdómi. Áfrýjaði ríkissaksóknari dóminum og fór fram á 16 ára fangelsi yfir Val.

Auk fangelsisdóms var Valur dæmdur til að greiða fjórum börnum Ragnars þrjár milljónir, sem er sama upphæð og Valur hafði verið dæmdur til að greiða þeim í héraðsdómi. Þá var hann dæmdur til að standa straum af útfararkostnaði. Sigurður Kári Kristjánsson, lögmaður einka­rétt­ar­hafa í málinu, fór fram á að hvert barnanna fengi átta milljónir í miskabætur.

Við aðalmeðferð málsins fyrir Landsrétti sagði Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari engan vafa leika á því að Valur hafi orðið Ragnari að bana. Taldi hann ekkert benda til þess að Valur hafi fyrir fram ætlað að verða bróður sínum að bana. Hins vegar væri ekki um að ræða eitt kjaftshögg, heldur ítrekaðar árásir og langlíklegast hafi verið að Ragnar dæi vegna þeirra. Meðal annars hafi Valur sparkað ítrekuðum þungum spörkum í höfuð Ragnars.

Valur ákvað við aðalmeðferð málsins fyrir Landsrétti að tjá sig ekki og kom það ákæruvaldinu í opna skjöldu.

Helgi Magnús sagði við aðalmeðferðina að Valur hafi engu skeytt um ástand Ragn­ars. „Það átti ekk­ert að stoppa við það að brotaþoli væri rænu­laus,“ sagði hann og bætti við að það væri eng­in vörn fólg­in í því að segja að Val­ur hafi verið ölvaður. „Það fer ekk­ert á milli mála að hon­um hljóti að hafa verið ljóst að hann væri að ganga af bróður sín­um dauðum.“

mbl.is