Manndráp af ásetningi

Helgi Magnús Gunnarsson, vararíkssaksóknari, segir það ekki koma fram í …
Helgi Magnús Gunnarsson, vararíkssaksóknari, segir það ekki koma fram í dómi Landsréttar hvers vegna Valur var dæmdur til 14 ára í stað 16. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Niðurstaðan er í samræmi við það sem lagt var upp með af ákæruvaldinu um að ákærði hafi gerst sekur um brot gegn 211. greinar hegningarlaga, sem sagt manndráp af ásetningi,“ segir Helgi Magnús Gunnarsson, vararíkissaksóknari, í samtali við mbl.is um dóm Landsréttar í máli Vals Lýðssonar.

Hann segir dóminn staðfesta að Valur hafi „haft ásetning til þess að svipta bróður sinn lífi og að sá ásetningur hafi hafi kviknað eftir að árásin hófst eða um það leyti.“

Valur var í dag dæmdur í Landsrétti í 14 ára fangelsi fyrir að hafa orðið bróður sínum, Ragnari Lýðssyni, að bana á heimili Vals að Gýgjarhóli II í Bláskógabyggð á síðasta ári. Áður hafði Valur hlotið sjö ára dóm í héraðsdómi. Áfrýjaði ríkissaksóknari dóminum og fór fram á 16 ára fangelsi yfir Val.

Helgi Magnús segir skorta rökstuðning fyrir því að Valur hafi hlotið 14 ára dóm í stað 16.

„Ákvörðun refsingar er mat dómsins og það verður ekki alveg lesið út úr dómnum hvað þeir leggja til grundvallar til þess að slá af þeirri venju sem Hæstiréttur hefur mótað um 16 ára fangelsi,“ svarar hann spurður hvort hann sé sáttur við ákvörðun Landsréttar um refsingu.“

„Það þarf ekkert að vera athugavert við það, það getur verið aldur eða eitthvað slíkt sem þeir eru að líta til,“ bætir hann við og bendir á að mikilvægasti þátturinn í dómnum sé að „það er algjörlega sakfellt í samræmi við ákæru.“

mbl.is