„Sigur fyrir sannleikann“

Valur Lýðsson hlaut 14 ára dóm í landsrétti í dag …
Valur Lýðsson hlaut 14 ára dóm í landsrétti í dag fyrir að hafa orðið bróður sínum að bana af ásetningi. Bróðursonur hans segir niðurstöðuna sigur fyrir sannleikan. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Niðurstaðan hefur alveg gífurlega mikla þýðingu að því marki að það hefur verið í kringum okkur fólk – gamlir vinir, kunningjar og ættingjar – sem að hafa haldið því fram í rúmt ár að þetta hafi verið bara slagsmál, eða slys og að pabbi hafi bara verið svo óheppinn að hafa verið undir,“ segir Ingi Rafn Ragnarsson í samtali við mbl.is um 14 ára fangelsisdóm sem föðurbróður hans, Valur Lýðsson, hlaut í Landsrétti í dag fyrir að verða Ragnari Lýðssyni að bana.

Áður hafði Valur hlotið sjö ára dóm í héraðsdómi. Áfrýjaði ríkissaksóknari dóminum og fór fram á 16 ára fangelsi yfir Val.

Tilhæfulaus orðrómur

„Miðað við niðurstöðu landsréttar í dag kemur alveg bersýnilega fram að þetta er ógeðfelld atlaga og er dæmd sem manndráp. Þetta slær annað algjörlega út af borðinu og er mjög gott til þess að sýna þessu fólki fram á hverju við þurftum að sitja undir mánuðum saman,“ segir Ingi Rafn.

Hann segir Landsrétt staðfesta að allur orðrómur um atburðarrásina sem leiddi til dauða föður hans hafi verið tilhæfulaus. „Þetta var ekkert slys og greinilega einhver vilji að verki.“

„Þetta er algjör sigur fyrir sannleikann," segir Ingi Rafn og bætir við að mikill léttir hafi verið að fá staðfestingu á réttri atburðarrás í kjölfar umfjöllunar og orðróms um að slys eða slagsmál hafi hafi leitt föður hans til dauða. „Þegar ranga hliðin er yfirsterkari í marga mánuði og við fáum svo rétt fram svart á hvítu, þá er það alveg gífurlegur munur.“

Refsiákvörðun ekki rökstudd

Ingi Rafn setur spurningamerki við refsiákvörðun Landsréttar. „Þessi dómur, 14 ár, það er í rauninni í sjálfu sér ágætis niðurstaða en við setjum spurningamerki við það af hverju er ekki farið alla leið í refsirammanum, upp í 16 ár. Það kemur ekki fram í dómsorðunum af hverju ekki.“

Hann kveðst þó geta sætt sig við niðurstöðu Landsréttar. „Þetta er þvílík breyting frá dómnum í héraðsdómi og miklu betra að sætta sig við þessa niðurstöðu heldur en þá sem við vorum búin að sjá fram að þessu. Við erum loksins að fá niðurstöðu sem héraðsdómur komst ekki að. Hann er dæmdur fyrir 211. grein sem hljóðar upp á manndráp af ásetningi.“

Telur Val áfrýja

„Ég tel líklegt að hann [Valur Lýðsson] muni reyna að áfrýja þessum dómi til Hæstaréttar,“ svarar Ingi Rafn er hann er spurður hvort hann telji málinu nú lokið.

„Það er kannski loksins núna sem þeir eru farnir að skilja – bæði lögfræðingurinn hans og hann sjálfur – í hvernig stöðu þeir voru í. Það er sennilega fyrst núna sem þeir eru að átta sig á því og staðfesta það með því að mæta ekki einu sinni í dómssal í dag, það segir meira en allt annað.“

mbl.is